Lífið

Magnaðar myndir úr tómatsósu

Marín Manda skrifar
Brynjar Björnsson með verkin sín.
Brynjar Björnsson með verkin sín.
Brynjar Björnsson gerir skemmtilegar myndir úr matvælum og sandi til að fjármagna dansinn.

„Ég er að gera myndir úr hveiti, sandi, sykri og jafnvel tómatsósu. Þetta er eins konar endurnýjunaraðferð hjá mér en ég ákvað bara að fara í eldhússkápana og prófa mig áfram,“ segir hinn 17 ára Brynjar Björnsson sem stundar nám á myndlistarbraut í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.

Brynjar segist hafa heillast af myndlist og sköpun fyrir alvöru þegar hann sótti starfskynningu hjá Bjarna Þórs, listamanni á Akranesi, og ákvað þá að þreifa fyrir sér í listinni.„Ég teikna með blýanti eða penna en var spenntur fyrir þessum fræðum að nota matvæli eða önnur efni í myndirnar mínar. Sandinum helli ég á plötu og teikna með puttanum. Síðan spreyja ég þetta með hárlakki og þá helst þetta voðalega vel.“ Klippimyndir og betrekktir stólar með gömlum nótnabókum og teiknimyndablöðum eru einnig verkefni sem hann hefur verið að sinna af miklum eldmóð.

Brynjar Björnsson
Listin á þó ekki einungis hug hans allan því hann sinnir dansíþróttinni af fullum krafti hjá Dansíþróttafélagi Hafnarfjarðar ásamt kærustu sinni og dansfélaga, Perlu Steingrímsdóttur. Parið tók þátt í Ísland got talent fyrir skömmu og stóð sig með prýði í keppninni. Brynjar stefnir á myndlistarnám erlendis þegar hann klárar skólann því þar getur hann einnig sinnt dansinum betur. „Dansinn er svo dýr íþrótt svo ég hef verið að fjármagna dansinn með sölu á myndunum mínum. Þá get ég keypt nýja dansskó og búninga. Þetta hefur bara gengið vel hingað til og ég er voðalega þakklátur að fólki líki myndirnar mínar.“ Hægt er að skoða myndirnar nánar á Brynjars artwork á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×