Enski boltinn

Shelvey: Olnbogaskotið óviljandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shelvey í leiknum í gær.
Shelvey í leiknum í gær. Vísir/Getty
Jonjo Shelvey, leikmaður Swansea, sagði að hann hafi ekki ætlað sér að gefa Liverpool-manninum Emre Can olnbogaskot í leik liðanna í gær.

Shelvey var heppinn að sleppa við rauða spjaldið eftir að hafa hæft Can í andlitið með handleggnum í fyrri hálfleik. Liverpool vann þó leikinn örugglega, 4-1, en Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Swansea í gær.

„Vil bara segja að ég gaf Emre Can ekki viljandi olnbogaskot,“ skrifaði Shelvey á Twitter-síðu sína. „Þetta kom út eins og að ég væri reyna að slasa annan leikmann og ég get fullvissað alla um að það var ekki svo. Ég bað hann einnig afsökunar.“

Fyrir leikinn var Shelvey gagnrýndur af Garry Monk, stjóra Swansea, fyrir leti og kæruleysi vegna þeirra sjö áminninga sem Shelvey hefur fengið á tímabilinu. Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur Sky-sjónvarpsstöðvarinnar, tók undir þá gagnrýni í gær.

„Þess vegna fór hann frá félaginu [Liverpool] á sínum tíma. Þetta snerist ekki um getu hans. En þetta gerðist 2-3 sinnum í viku á æfingasvæðinu - hann er agalaus.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×