Innlent

Ólafsfjarðarmúla lokað í kvöld vegna snjóflóðahættu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Slæm færð er víða á vegum landsins.
Slæm færð er víða á vegum landsins. Vísir/Auðunn Níelsson
Ólafsfjarðarmúla verður lokað klukkan 23 í kvöld vegna snjóflóðahættu. Þá er ófært á Bröttubrekku og ekki reiknað með að þar verði fært í kvöld.

Þá er hálka á Sandsskeiði, Hellisheiði og Þrengslum og á flestum öðrum leiðum á Suðurlandi.

Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði og mjög slæmt skyggni.  Hálka er svo víða á Vesturlandi, éljagangur og skafrenningur á fjallvegum.

Á Vestfjörðum er hálka og skafrenningur á fjallvegum á sunnanverðum fjörðunum en  snjóþekja og éljagangur á Gemlufallsheiði. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en þar er einnig skafrenningur.  Súðavíkurhlíð er nú opin en þar er ennþá varúðarstig vegna snjóflóðahættu og eru vegfarendur beðnir um að sýna sérstaka aðgát.

Á Norðurlandi vestra er víða hálka og skafrenningur og snjókoma á stöku stað. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Þverárfjalli og þungfært milli Sauðárkróks og Hofsóss. Ófært er yst á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er þæfingsfærð og snjókoma á Öxnadalsheiði. Einnig er þæfingur í Köldukinn og á Mývatnsheiði. Annars er yfirleitt snjóþekja eða hálka á vegum og víða ofankoma. Mjög slæmt skyggni er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og hálka og skafrenningur.

Lokað er á Fagradal, þæfingsfærð og skafrenningur á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra  en snjóþekja í Oddskarði. Hálka eða snjóþekja er víða á Austurlandi og éljagangur. Óveður er í Hamarsfirði og við Höfn í Hornafirði.

Hálka er víða við suðausturströndina en þæfingsfærð milli Kirkjubæjarklausturs og Mýrdalssands. Óveður er á Reynisfjalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×