Innlent

Hvassviðri víðast hvar á landinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ernir
Töluvert hvassviðri gengur nú yfir landið. Vindhraði á höfuðborgarsvæðinu hefur verið á bilinu 10-20 metrar á sekúndu og fór mest í 22 metra á sekúndu við Reykjavíkurflugvöll. Eftir því sem líða tekur á daginn verður hvassast við suðausturströndina og annesjum norðvestantil, eða allt að 23 metrar á sekúndu. Veðri tekur líklega að lægja í fyrramálið.

„Það gengur á með hvössum éljum núna og mun gera í kvöld og í nótt en á morgun verður vindur heldur hægari og minni él, en það verður éljagangur núna næsta sólarhringinn.  Þetta er hvassviðri með éljagangi sem er að ganga yfir landið en byrjar vestantil. Nú er víða rigning en það á að fara að kólna í kvöld með éljagangi víða og verður hiti í kringum frostmark.,“ segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Þá er reiknað með vaxandi hríðarveðri á flestum fjallvegum frá Lyngdalsheiði og Hellisheiði í suðri, allt norður á Öxnadalsheiði, en þar fer veður versnandi síðdegis.

Færð og aðstæður

Á Suðurlandi eru víða hálkublettir þó er Reykjanesið greiðfært. Á Holtavörðuheiðinni eru hálkublettir en snjóþekja á Bröttubrekku. Hálka er í Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en í djúpinu eru hálkublettir.

Hálka, hálkublettir og snjókoma eru víða á sunnanverðum Vestfjörðum. Snjóþekja og snjókoma er á Dynjandisheiði og þæfingsfærð í Trostansfirði.

Hálkublettir eru á köflum á Norðurlandi. Á Austurlandi eru hálkublettir á stöku fjallvegum en annars greiðfært. Hálkublettir eru einnig á Suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×