Innlent

Varðskipið Týr tók þátt í björgun 300 flóttamanna í nótt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá björguninni.
Frá björguninni. mynd/landhelgisgæslan
Varðskipið Týr tók í nótt þátt í björgun þrjú hundruð flóttamanna af stjórnlausu flutningaskipi um 165 sjómílur austur af Sikiley. Eftirlitsflugvél frá ítölsku strandgæslunni flaug fram á skipið og fengust þá upplýsingar um fjölda flóttamanna um borð og að í hópnum væru bæði konur og börn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands, en þar segir að hvorki matur né vatn hafi verið um borð í skipinu og því talið mikilvægt að flytja fólkið sem fyrst frá borði. Jafnframt segir að varðskipið Týr hafi verið staðsett í um það bil hundrað sjómílna fjarlægð og að því hafi samstundis verið siglt á vettvang. Einnig hafi verið óskað eftir aðstoð eftirlitsskips frá ítölsku strandgæslunni.

Hvorki matur né vatn var um borð í skipinu og var því talið mikilvægt að flytja fólkið sem fyrst frá borði.mynd/Landhelgisgæsla íslands
Flutningaskip á svæðinu voru fyrst til björgunar og var tekin ákvörðun um að flytja flóttafólkið um borð í eitt flutningaskipanna. Týr sigldi til móts við skipið og þegar þau mættust fóru fjórir skipverjar af Tý yfir í flutningaskipið til að vera til aðstoðar og meta ástandið fólksins en tveir úr hópnum voru slasaðir.

Í morgun kom ítalska varðskipið að Tý og flutningaskipinu, en til stóð að hefja flutning á flóttafólkinu frá flutningaskipinu yfir í ítalska varðskipið. Ekki gekk þó að flytja fólkið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en slæmt sjólag var á svæðinu og voru aðstæður ekki taldar boðlegar að teknu tilliti til öryggi fólksins. Því var ákveðið að flutningaskipið myndi sigla með flóttafólkið til Catania á Sikiley í fylgd varðskipsins Týs en sex varðskipsmenn voru um borð í flutningaskipinu til að hlúa að flóttafólkinu þar til komið var til hafnar. Flutningaskipið lagðist að bryggju á Ítalíu seinni partinn í dag og var þá hafist handa við að flytja fólkið frá borði.

Ekki gekk að flytja fólkið frá borði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Því var siglt til Catania á Sikiley.mynd/landhelgisgæsla íslands
Ítalir hafa bjargað yfir 150 þúsund manns á rétt rúmu ári, en flóttamennirnir koma flestir frá Norður-Afríku.  Um þar síðustu mánaðamót lauk aðgerð ítalska flotans sem kölluð var Mare Nostrum eftir að önnur ríki Evrópusambandsins neituðu að leggja sitt af mörkum í henni og hjálpa þeim að mæta þeim rekstrarkostnaði sem aðgerðinni fylgir. Kostnaðurinn nemur tæplega einum og hálfum milljarði íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×