Innlent

Nú er rétti tíminn fyrir bólusetningu

Stefán Árni Pálsson skrifar
vísir/vilhelm
Þrátt fyrir að hin árlega inflúensa hafi enn ekki greinst hér á landi þennan veturinn telur sóttvarnalæknir afar mikilvægt að fólk láti bólusetja sig. Frá þessu er greint á vefsíðu embættis Landlæknis.

Þar segir að ekki sé bara horft til inflúensunnar heldur beri líka að hafa í huga að vegna gosmengunar frá Holuhrauni gæti inflúensan lagst þyngra á þá sem eru með langvinna sjúkdóma og/eða eru 60 ára og eldri.

Ávallt megi búast við inflúensunni í kringum áramótin svo nú er rétti tíminn fyrir bólusetningu.

Ástæða þess að hvatt er til árlegrar inflúensubólusetningar er sú að veirustofnar inflúensunnar geta verið mismunandi milli ára.

Inflúensutímabilið nær helst yfir köldu mánuðina, frá október til mars, en inflúensan getur staðið allt fram á vor. Meðgöngutími inflúensu eru nokkrir dagar.

Það getur tekið allt að 2 til 3 vikur fyrir bóluefnið að gefa vörn. Bóluefnið verndar ekki gegn almennu kvefi eða öðrum veirusýkingum en sumar af þessum sýkingum geta valdið einkennum sem líkjast inflúensu.

Bóluefnið inniheldur vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009/2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B.

Almenn bólusetning er í höndum heilsugæslunnar en auk þess er bólusett á sjúkrastofnunum og ýmis fyrirtæki hafa tekið að sér bólusetningu almennings og starfsmanna.

Bólusetning gegn inflúensu veitir allt að 60–70% vörn gegn sjúkdómnum. Jafnvel þótt bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×