Innlent

Vill að veiðileyfi verði virðisaukaskattskyld

Bjarki Ármannsson skrifar
Jón Þór vill að útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa njóti ekki undanþágu virðisaukaskatts.
Jón Þór vill að útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa njóti ekki undanþágu virðisaukaskatts. Vísir/GVA/Stefán
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hyggst leggja fram breytingartillögu á þingi þar sem lagt er til að útleiga veiðiréttar og sala veiðileyfa í ám og vötnum njóti ekki lengur undanþágu virðisaukaskatts. Hann leitar um þessar mundir meðflutningsmanna.

Í tilkynningu segir Jón Þór að stjórnvöld geti ekki sagt að meiri peningar séu ekki til í heilbrigðiskerfið á meðan vanrækt er að afnema undanþágu virðisaukaskatts á laxveiði og sækja þannig „sanngjarnan og skilvirkan skatt.“

Tillaga Jóns Þórs um að afnema þessa undanþágu er ekki ný af nálinni og hefur Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, til að mynda nokkrum sinnum hvatt til þess að veiðileyfi verði virðisaukaskattskyld.  Þessu eru veiðimenn þó andvígir.

„Veiðileyfi er í raun veiðileiga og hún er lögum samkvæmt fasteignaleiga,“ sagði Óðinn Sigþórsson, formaður Landssambands veiðifélaga , í samtali við Vísi nýverið. „Sú leiga er ekki virðisaukaskattskyld. Veiðiréttindi eru metin til fasteignaverðs og eru hluti af fasteign veiðiréttareiganda.“

Í breytingartillögu Jóns Þórs, sem fylgir með fréttinni í viðhengi, er þó lagt til að líta á veiðileyfi líkt og útleigu hótelherbergja, sem flokkast undir fasteignaleigu en er þó virðisaukaskattskyld.

„Skattastefna ríkisstjórnarinnar er að gera skattkerfið skilvirkara, meðal annars með því að afnema núna fyrir jól margar undanþágur á VSK, s.s. á ferðaþjónustu,“ segir í tilkynningu Jóns Þórs.

„Hingað til hefur Ríkisskattstjóri álitið að veiðileyfi með fast gjald óháð veiðifangi skuli flokka sem fasteignaleigu og því undanþegin VSK. Með þessari breytingartillögu segir löggjafinn að þó líta megi á veiðileyfi, eins og útleigu hótelherbergja, sem fasteignaleigu þá eru hvoru tveggja þó virðisaukaskattskylt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×