Fótbolti

Moyes eða Mel næsti þjálfari Alfreðs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Moyes hefur verið duglegur að æfa sveifluna síðustu mánuðina.
Moyes hefur verið duglegur að æfa sveifluna síðustu mánuðina. Vísir/Getty
Samkvæmt Jokin Aperribay, forseta spænska úrvalsdeildarliðsins Real Sociedad, eru David Moyes og Pepe Mel líklegastir til að taka við liðinu, en ákvörðun um þjálfaramál Sociedad verður tekin í dag. Þetta kom fram í frétt á heimasíðu breska dagblaðsins the Guardian í gær.

Moyes, sem var rekinn frá Manchester United í apríl eftir aðeins tíu mánuði í starfi, ku vera fyrsti kostur Sociedad-manna, en þeir bíða enn svars frá Skotanum.

Viðræðurnar við Moyes hafa dregist á langinn, en talið er að Sociedad eigi í vandræðum með að mæta launakröfum hans.

Samkvæmt frétt Guardian hefur Pepe Mel samþykkt að taka við liðinu ef Moyes kemur ekki til Baskalands.

Pepe Mel var síðast við stjórnvölinn hjá West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni, en hann hefur farið víða á þjálfaraferlinum. Meðal liða sem hann hefur stýrt eru Getafe, Alavés, Rayo Vallecano og Real Betis.

Real Sociedad vann óvæntan 2-1 sigur á Spánarmeisturum Atlético Madrid í gær, en þetta var aðeins annar sigur liðsins í spænsku deildinni í vetur. Hinn sigurinn kom í 2. umferð gegn Evrópumeisturum Real Madrid.


Tengdar fréttir

Alfreð fær nýjan þjálfara

Alfreð Finnbogason mun fá nýjan stjóra á næstu dögum, en Jagoba Arrasate var sagt upp störfum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×