Innlent

Ríkið borgar hluta af sneiðmyndatæki Vesturlendinga

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Nýja tækið á að nota á HVE á Akranesi.
Nýja tækið á að nota á HVE á Akranesi. Vísir/GVA
Ríkið mun borga hluta af þeim fjörutíu milljónum sem nýtt sneiðmyndatæki kostar og á að nota í Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) á Akranesi. Þetta var ákveðið á fundi fulltrúa Hollvinasamtaka HVE og heilbrgiðisráðherra sem fór fram í dag. Í fréttatilkynningu frá Hollvinasamtökum HVE segir:

„Hollvinasamtökin eru komin vel áleiðis með að fjármagna kaup á nýju sneiðmyndatæki, en herslumuninn vantar þó enn til að allt gangi upp.  áfangi í fjármögnun tækisins felst hins vegar í afar jákvæðum og ánægjulegum viðbrögðum heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem á fundi með fulltrúum hollvinasamtakanna staðfesti að ráðuneytið mun styðja við endurnýjun tækisins með því að tryggja fjármögnun hluta kaupanna og eru Hollvinasamtökin þakklát fyrir stuðninginn og góðan skilning á mikilvægi tækisins fyrir íbúa á Vesturlandi.“

Tækið sem var til á stofnuninni var orðið sjö ára gamalt og hrundi á endanum á föstudaginn. Sagt var frá málinu á heimasíðu HVE í fyrradag. Þar kemur fram að 1700 rannsóknir hafi verið gerðar í tækinu á þessu ári. 

Vísir fjallaði ítarlega um málið í gær og var meðal annars rætt við Steinunni Sigurðardóttur, sem er formaður hollvinasamtakanna. Hún sagði við Vísi í gær:

„Söfnunin fyrir nýju tæki er rúmlega hálfnuð. Tækið kostar um fjörutíu milljónir, þannig að það er stórt verkefni að safna fyrir svona tæki á þessu svæði. En þetta mál vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Tækið sem hrundi núna var gjöf frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Maður spyr sig hvort að sá sem rekur stofnunina – ríkisvaldið – eigi ekki að sjá um viðhald og endurnýjun á tækjum sem eru gefin að gjöf?“

Steinunn upplýsti lesendur Vísis um að búið væri að safna fyrir rúmlega helmingi uppsetts verðs á nýju sneiðmyndatæki auk þess sem hún sagði frá fundinum sem var í dag:

„Það er reyndar tilviljun að fundurinn sé svona stuttu eftir að tækið hrundi. Við vorum búin að ræða við ráðherra fyrr á árinu og biðja um fundinn. Í apríl óskuðum við eftir því að ríkið kæmi með okkur í þetta og erum spennt að sjá hver viðbrögðin verða á morgun [í dag].“

Þrátt fyrir að ríkið ætli að koma til móts við Vesturlendinga stendur söfnunin ennþá yfir og því ljóst að ríkið mun ekki borga allt það sem eftir stendur. Í fréttatilkynningunni segir ennfremur:

„Hollvinasamtökunum  er því fátt að vanbúnaði til að panta nýtt sneiðmyndatæki í samráði við HVE.

Sem fyrr er nefnt vantar nú aðeins herslumuninn til þess að unnt verði að panta nýja tækið.  Hollvinasamtökin eru sannfærð um að félagasamtök, íbúar og fyrirtæki muni nú taka höndum saman fyrir þennan lokaáfanga söfnunar.

Söfnunarreikningur Hollvinasamtakanna er:  0326-22-000834 og kennitala: 510214-0560.

Einnig er minnt á heimasíðu hollvinasamtakanna vesturlandsvaktin.is þar sem áhugasamir aðilar geta skráð sig í samtökin.“


Tengdar fréttir

Þurfa að safna fyrir sneiðmyndatæki í annað sinn

„En þetta mál vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Tækið sem hrundi núna var gjöf frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Maður spyr sig hvort að sá sem rekur stofnunina – ríkisvaldið – eigi ekki að sjá um viðhald og endurnýjun á tækjum sem eru gefin að gjöf?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×