Innlent

Þurfa að safna fyrir sneiðmyndatæki í annað sinn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Nýja tækið á að nota á HVE á Akranesi.
Nýja tækið á að nota á HVE á Akranesi.
Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) hafa undanfarna mánuði staðið fyrir söfnun á nýju sneiðmyndatæki, sem hugsað er til notkunar í útibúi stofnunarinnar á Akranesi. Tækið sem var til á stofnuninni var orðið sjö ára gamalt og hrundi á endanum á föstudaginn.

Sagt var frá málinu á heimasíðu HVE í gær. Þar kemur fram að 1700 rannsóknir hafi verið gerðar í tækinu á þessu ári.

Nú er því ekkert sneiðmyndatæki á HVE og segir Steinunn Sigurðardóttir, formaður hollvinasamtakanna, að oft hafi verið þörf en nú sé nauðsyn.

„Söfnunin fyrir nýju tæki er rúmlega hálfnuð. Tækið kostar um fjörutíu milljónir, þannig að það er stórt verkefni að safna fyrir svona tæki á þessu svæði. En þetta mál vekur upp ýmsar siðferðislegar spurningar. Tækið sem hrundi núna var gjöf frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu. Maður spyr sig hvort að sá sem rekur stofnunina – ríkisvaldið – eigi ekki að sjá um viðhald og endurnýjun á tækjum sem eru gefin að gjöf?“ spyr Steinunn.

Funda með heilbrigðisráðherra á morgun

Hollvinasamtök HVE eiga fund með Kristjáni Þór Júlíussyni á morgun þar sem rætt verður um aðkomu ríkissins að kaupum á tækinu. „Það er reyndar tilviljun að fundurinn sé svona stuttu eftir að tækið hrundi. Við vorum búin að ræða við ráðherra fyrr á árinu og biðja um fundinn. Í apríl óskuðum við eftir því að ríkið kæmi með okkur í þetta og erum spennt að sjá hver viðbrögðin verða á morgun.“

Steinunn segir að í síðustu viku hafi bréf verið sent á 185 stór og smá fyrirtæki á vesturlandi. „Ég heyri á þeim sem ég hef rætt við hjá mörgum fyrirtækjum að þeir séu þeirrar skoðunar að ríkið eigi að kaupa tækið.“

Hún segir að félagasamtök á borð við Lionsklúbba, Kiwanisklúbba og kvenfélög hafi verið afar dugleg að safna fyrir sneiðmyndatækinu dýra. „Það skiptir okkur máli að hafa sneiðmyndatæki hér. Það eru sneiðmyndatæki í öllum landshlutum, þannig að ef ekkert tæki kemur í staðinn fyrir þetta verður þetta eini landshlutinn þar sem ekkert sneiðmyndatæki er til á.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×