Innlent

Krefst þess að Assange komi í héraðs­dóm og beri vitni

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Sigurður er meðal annars sakaður um að hafa svikið út fé með því að þykjast vera Julian Assange.
Sigurður er meðal annars sakaður um að hafa svikið út fé með því að þykjast vera Julian Assange. Vísir / Getty Images

Lögmaður Sigurðar Inga Þórðarsonar, eða Sigga hakkara, hefur gert þá kröfu að Julian Assange, ritstjóri Wikileaks, komi fyrir Héraðsdóm Reykjaness til að bera vitni og fái ekki að gefa skýrsluna í gegnum síma. Assange er á vitnalista ákæruvaldsins í málinu sem snýst um meint fjársvik Sigurðar.

Svik Sigurðar eru metin á um þrjátíu milljónir króna en hann er meðal annars sakaður um að hafa svikið út fjármuni með því að þykjast vera Assange. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Sigurðar, segir að Assange sé lykilvitni í málinu.

„Það er grunnregla samkvæmt íslensku sakamálaréttarfara, mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá,“ segir Vilhjálmur um kröfuna. „Það er heldur ekki sama hvert vitnið er. Það er stundum hægt að fallast á það að símaskýrsla sé í lagi ef framburður vitnisins er tiltölulega léttvægur en í þessu tilviki þá er Julian Assange eitt af lykilvitnum varnarinnar.“

Vilhjálmur segir að Sigurður Ingi muni byggja málsvörn sína meðal annars á því að hann hafi haft heimild til að haga hlutum með þeim hætti sem hann gerði. „Það eru alveg skýr dómafordæmi um það að lykilvitni þurfi að koma fyrir dóm. Vitni sem geta ráðið úrslitum um sekt eða sýknu manna. Það er ekki talið að þau geti komist upp með að gefa bara símaskýrslu,“ segir hann.

Héraðsdómur á eftir að úrskurða hvort símaskýrsla verði heimil eða ekki en ákæruvaldið mótmælti kröfu Vilhjálms. „Það kemur úrskurður frá héraðsdómi eftir helgi,“ segir hann.

Assange hefur undanfarið dvalið í sendiráði Ekvador í London til að forðast handtöku og framsal til Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×