Innlent

Bandaríkjamenn fóru á mótorhjólum um hálendi Íslands

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá kappana að verki.
Hér má sjá kappana að verki.
Mótorhjólateymið Desert Assassins hefur birt myndband af ferðalagi sínu um óbyggðir Íslands. Mótorhjólaknaparnir ferðuðust á vélhjólum um hálendið, fóru yfir ár, gras, möl og annað undirlendi.

Myndbandið hefur vakið athygli og hjá sumum reiði en þeir telja að þarna sé um lögbrot að ræða; að um utanvegarakstur sé að ræða. Samkvæmt heimildum Vísis hefur myndbandið verið sent til Umhverfisstofnunar.

Hér má sjá myndbandið.



Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvar vélhjólakapparnir eru nákvæmlega í myndbandinu. Líklegast er stærstur hluti myndbandsins tekinn upp á hálendinu norðan og austan við Heklu; Landmannaleið sem einnig er kölluð Dómadalsleið. Frostastaðavatni virðist bregða fyrir. Þeir gætu einnig hafa farið Fjallabaksleið nyrðri og verið í kringum Skjólkvía við Heklu, eða við einhver nýleg hraun úr Heklu.

Þá voru þeir greinilega einnig á hálendinu sunnan og austan við Langjökul, hugsanlega farið í Kerlingarfjöll, kannski farið leið sunnan við Hofsjökul og með vesturbökkum Þjórsár. Kannski tekið línuveginn sunnan Langjökuls meðfram Hlöðufelli.

Þá gætu einnig verið myndskot frá Hengilssvæðinu, hugsanlega í Dyrafjöllum og jafnvel einnig norðan við Ölkelduháls.

Í myndbandinu birtast viðtöl við vélhjólakappana þar sem þeir lýsa upplifun sinni af íslenskum óbyggðum. Á áttundu mínútu myndbandsins segir einn kappinn frá því þegar þeir ákváðu að hætta að keyra á slóðum og fara ótroðnar slóðir. Rétt eftir að sú ákvörðun var tekin datt einn þeirra af hjólinu og lenti með andlitið á hrjúfum hraunmola með þeim afleiðingum að hann skarst í andlitinu. 

Þegar þeir keyrðu í kringum Heklu sagði einn þeirra: „Þetta er eins og að keyra á púðri, nema að þú ert að keyra á eldfjalli.“ Hann segir fegurðina hafa verið stórkostlega þegar þeir fóru niður dal í kringum Heklu. 

Kapparnir voru sáttir með ferðalag sitt til Íslands og segja fjölbreytileikann í landslaginu hafa heillað sig sérstaklega. 

Hér að neðan má sjá tíst frá velhjólaköppunum bandarísku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×