Innlent

Gísli Marteinn: Reykjavíkurflugvöllur gamaldags sósíalísk byggðastefna

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson. vísir/vilhelm
„Það er ótrúlegt að sjálfstæðismenn, sem sumir segjast vera frjálshyggjufólk, standi vörð um flugvöll í Vatnsmýri. Flugvöllurinn er eins augljóst gamaldags, sósíalískt byggðarstefnumál og hugsast getur,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á Facebook í dag.

Framtíð flugvallarins í Vatnsmýri er enn óráðin og deilur um staðsetningu hans hafa staðið yfir í töluverðan tíma. Skoðanir á flugvellinum eru margar eins og þær eru misjafnar en af skrifum Gísla má ráða að honum hugnist staðsetning hans ekki.

Sjálfstæðismenn vilja flestir flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, eða um 90 prósent þeirra samkvæmt könnun MMR. Gísli sparar því ekki stóru orðin og hægt er að  orða það sem svo að hann bókstaflega „hjóli“ í fyrrverandi samstarfsfélaga sína hjá Sjálfstæðisflokknum.

„Sama fólk og styður sameiningar heilbrigðisstofnanna úti á landi í nafni hagræðingar hafnar því að sameina Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll, jafnvel þótt samgöngur milli Rvk og KEF séu margfalt betri en á landsbyggðinni. Sameining flugvallanna myndi þó spara miklar fjárhæðir og leysa úr læðingi besta og eftirsóttasta byggingasvæði landsins, vera lyftistöng fyrir háskólasamfélag á Íslandi og gera Reykjavík að betri borg,“ bætir Gísli við.

Gísli Marteinn ákvað að hætta afskiptum af pólitík og láta af störfum sem borgarfulltrúi á síðasta ári. Sagði hann ýmsar ástæður liggja þar að baki, meðal annars stöðugar illdeilur sem var í kjölfarið til þess að hann dró sig í hlé.

Færslu Gísla má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×