Innlent

Frétti af flutningi svæðisskrifstofu í heita pottinum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar.
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar fordæmir þau vinnubrögð ríkisins að ætla að loka Svæðisskrifstofu Vinnueftirlitsins í Hveragerði og færa starfsemina og þar með fimm störf á Selfoss.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar frétti það í heita pottinum í sundlauginni í Hveragerði að það ætti að flytja starfsemi Svæðisskrifstofu Vinnueftirlits ríkisins í Hveragerði á Selfoss og hefur hún nú fengið það staðfest hjá starfsmönnum eftirlitsins. Bæjarráð Hveragerðisbæjar fordæmi vinnubrögðin í gær og það sama gerir Aldís bæjarstjóri.

„Auðvitað þykir þetta afar sérkennilegt að taka fimm störf úr Hveragerði til þess að flytja þau örfáa kílómetra lengra austur. Þetta er vægast sagt undarleg ráðstöfun, sem við fordæmum. Þetta eru einu störfin á vegum ríkisins í Hvergerði ef undan er skilin heilsugæslan. Þess vegna finnst okkur mjög sérstakt að taka þessa stofnum, sem er í sérhönnuðu húsnæði og var sérstaklega innréttað fyrir þau á sínum tíma,“ segir Aldís.

Vinnueftirlitið mun færast í sama húsnæði og Vinnumálastofnun hefur við Eyraveginn á Selfossi en þar er ríkið með leigusamning til 2017 en leigusamningurinn í Sunnumörk í Hveragerði er hins vegar að renna út.

„Hvergerðingar eru mjög ósáttir og okkur finnst þetta ömurleg skilaboð til landsbyggðarinnar þegar það eru búin að vera svona störf í sveitarfélagi eins og okkar. Þau séu svo rifin frá okkur kannski af því að við erum ekki nógu mikil landsbyggð, við áttum okkur ekki á þessu“, segir Aldís ennfremur.

Bæjarráð Hveragerðisbæjar sendi frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem það hvetur félagsmálaráðherra til að endurskoða ákvörðun sína:

„Hvergerðingar undrast þær fréttir sem borist hafa um væntan flutning Svæðisskrifstofu Vinnueftirlits frá Hveragerði til Selfoss. Vinnueftirlitið hefur haft skrifstofu sína í Hveragerði í áratugi og er í dag í afar góðu sérhönnuðu húsnæði sem hentar Vinnueftirlitinu vel. Er þetta eina starfsemin sem rekin er á vegum ríkisins í Hveragerði ef undan er skilin heilsugæslan. Þykir okkur því lítill sómi að því að færa þessi 5 stöðugildi á Selfoss og valda þar með enn meiri skekkju en orðin er í dreifingu starfa á vegum ríkisins. Ekkert getur í fljótu bragði skýrt þessa ákvörðun sem bæjarfulltrúar í Hveragerði fordæma harðlega um leið og þeir hvetja félagsmálaráðherra til að endurskoða ákvörðun sína.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×