Innlent

HIV-veiran rakin aftur til Kinshasa á þriðja áratugnum

Atli Ísleifsson skrifar
Um 75 milljónir manna hafa smitast af veirunni.
Um 75 milljónir manna hafa smitast af veirunni. Vísir/Getty
Vísindamenn segja að uppruna HIV-veirunnar megi rekja aftur til afrísku borgarinnar Kinshasa á þriðja áratug síðustu aldar. Kinshasa er nú höfuðborg Lýðveldisins Kongó. Segja þeir blanda mikillar fólksfjölgunar, kynlífs og lestarsamgangna hafi stuðlað að dreifingu veirunnar.

Í frétt BBC kemur fram að vísindamenn við háskólunum í Oxford og Leuven hafi notað nýja tækni við að endurskapa „ættartré“ HIV-veirunnar til að komast að því hvaðan elstu forverar hennar komu.

Í grein þeirra í vísindatímaritinu Science kemur fram að viðskipti með kynlíf, fólksfjölgun og ósótthreinsaðar nálar sem notaðar voru á heilsugæslustöðvum hafi leitt til útbreiðslu faraldursins.

Efling lestarsamgangna, sem naut stuðnings Belgíu á sínum tíma, hafi svo leitt til þess að auðvelda dreifingu veirunnar, en um milljón manns fóru um Kinshasa á hverju ári á þessum tíma.

HIV-veiran og útbreiðsla alnæmis varð þekkt meðal almennings á vesturlöndum á níunda áratugnum og hafa um 75 milljónir smitast af veirunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×