Innlent

"Engar ákvarðanir verið teknar"

Linda Blöndal skrifar
Eygló Harðardóttir ráðherra félagsmála.
Eygló Harðardóttir ráðherra félagsmála.
Eygló Harðardóttir sagði í fréttum Stöðvar tvö í kvöld að engar ákvarðanir hafi verið teknar um breytingar eða flutninga á Barnaverndarstofu og verið sé að skoða marga þjónustuliði Félagsþjónustunar, ekki bara barnaverndina. Verið sé að skoða þjónustuna á sveitarstjórnarstiginu. Barnaverndarstofu hafi verið boðið að borðinu og til að vinna með nýrri nefnd sem vinnur í málinu en hefur ekki enn fundað. „Það hefur ekkert verið ákveðið", sagði Eygló. „Leyfum nefndinni fyrst að vinna sína vinnu og skila mér niðurstöðum"

Aðgreina þjónustu betur frá eftirlitinu

Breytingar eru framundan á barnaverndarkerfinu og hefur verið skipuð nefnd á vegum Eyglóar Harðardóttur, félagsmálaráðherra til að endurskoða stjórnsýslu félagsþjónustu og barnaverndar en búist er við að störf verða flutt frá Höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og mögulega ný stofnun sett á fót utan höfuðborgarsvæðisins. Í rökstuðningi fyrir breytingunum er vísað til ábendinga um að það séu ýmsar brotalamir þegar kemur að málaflokknum og að gæðastaðla vanti um hvað sé góð barnavernd. Einnig þurfi skýrari skil á milli þjónustunnar og eftirlits með henni.

Yfirlýsing frá starfsmönnum

Starfsmenn Barnaverndarstofu sem eru 34 talsins, sendu frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem fyrirætlanirnar eru harðlega gagnrýndar og ráðherra sakaður um rangfærslur. Starfsmennirnir segja að stofnunin leiðbeini og hafi eftirlit með að lögum sem framfylgt og viðhafi skipulagt gæðaeftirlit.

Óljóst með hlutverk í nefndinni

Heiða Björg Pálmadóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu segir starfsfólkið viljugt til að endurskoða uppbyggingu barnaverndarkerfisins. En í yfirlýsingunni frá í morgun er ráðherra gagnrýndur fyrir að hafa ekki samráð við sérfræðinga Barnaverndarstofu. Heiða Björg segir að stofunni hafi borist fyrsta formlega boðið rétt fyrir hádegi í dag, eftir að starfsfólkið sendi frá sér ályktun og að búið væri að skipa nefndina. Það væri líka óljóst hvaða hlutverki fulltrúi stofunnar ætti þá að gegna eða hvort hann ætti bara að vera starfsmaður hennar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×