Erlent

Hafa búið til typpi á rannsóknarstofu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísindamennirnir hafa nú þegar búið til sex typpi fyrir menn sem eru tilbúin til notkunar.
Vísindamennirnir hafa nú þegar búið til sex typpi fyrir menn sem eru tilbúin til notkunar. Vísir/Getty
Vísindamenn við Wake Forest-stofnunina hafa náð að búa til typpi úr lífvef á rannsóknarstofu. Árangur vísindamannanna er eftirtektarverður og gæti jafnvel orðið til að hjálpa karlmönnum að fimm árum liðnum.

Anthony Atala fór fyrir teyminu sem byrjaði að þróa tækni til að búa til typpi úr lífvef inni á rannsóknarstofu. Tilraunirnar byrjuðu árið 1992 og báru árangur 16 árum síðar þegar tókst að græða typpi á 12 kanínur. Í kjölfarið voru kanínurnar látnar para sig með kvenkyns kanínum og náðu átta kanínur að hafa sáðlát. Fjórar þeirra eignuðust svo afkvæmi.

Þrátt fyrir að þessar niðurstöður lofi vissulega góðu verður erfiðara að fá leyfi til að prófa tæknina á mönnum. Atala er þó sannfærður um að leyfi fáist hjá Bandarísku lyfjastofnuninni innan fimm ára, takist vísindamönnunum að sýna fram á að tilraunin og tæknin við hana sé örugg.

Vísindamennirnir hafa nú þegar búið til sex typpi fyrir menn sem eru tilbúin til notkunar. Ef leyfi fæst fyrir tilraunum á mönnum vonast rannsóknarteymið til þess að typpi, gerð á rannsóknarstofu, geti nýst karlmönnum með alls kyns vandamál, til dæmis þeim sem hafa orðið fyrir alvarlegum meiðslum, ekki hvað síst í stríði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×