Fótbolti

Aron Einar: Vonandi á uppleið í Cardiff

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Riga skrifar
Vísir/Getty
Það hefur gengið á ýmsu hjá Cardiff City eftir að liðið féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor. Ole Gunnar Solskjær hætti sem knattspyrnustjóri þar sem liðið hefur byrjað tímabilið í ensku B-deildinni illa.

Aron Einar Gunnarsson, leikmaður liðsins og fyrirliði íslenska landsliðsins, segir að það hafi verið leiðinlegir tímar hjá liðinu að undanförnu en að þetta sé vonandi allt á uppleið.

„Það er óskandi að menn geta farið að einbeita sér að fótboltanum. Við leikmenn höfum reynt að gera það og látið allt hitt vera,“ sagði Aron Einar á blaðamannafundi landsliðsins í gær en það mætir Lettlandi í Riga í kvöld.

„Það er alltaf jafn gaman að hitta landsliðið og spila mikilvæga leiki. Ég hlakka til að spila í kvöld,“ sagði hann um leikinn.

„Sjálfum hefur mér gengið allt í lagi hjá Cardiff. Það var auðvitað sjokk að koma niður í B-deildina þó svo að við séum með marga leikmenn sem þekkja vel að spila í þessari deild. Það er alltaf áfall að falla úr ensku úrvalsdeildinni.“

„Ég er búinn að spila mikið sem ég tel til dæmis jákvætt fyrir íslenska landsliðíð. Úrslitin hafa vitanlega ekki verið upp á marga fiska en það fer vonandi að snúast við og við förum að klífa upp töfluna á nýjan leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×