Innlent

Ungmenni í öllum nefndum hjá Seltjarnarnesbæ

Stefán Árni Pálsson skrifar
mynd/aðsend
Á sínum tíma fór Ungmennaráðið Seltjarnarnesbæjar fram á það við bæjarstjóra Seltjarnarness, Ásgerði Halldórsdóttur, að fulltrúar þess fengju að taka virkari þátt í nefndarstarfi bæjarins.

Vel var brugðist við þeirri málaleitan og í fyrra var stigið fyrsta skrefið í þá veru með samþykki allra kjörinna fulltrúa bæjarins en þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarfélaginu.

Ungmennaráð Seltjarnarnesbæjar hefur nú nýlega skipað fulltrúa í allar stærstu nefndir bæjarins þar sem það hefur málfrelsi og tillögurétt.

Þetta eru þau Anna Lilja Björnsdóttir og Victor Levi Ferrua Teitsson í íþrótta- og tómstundanefnd, Lillý Óladóttir og Tómas Helgi Kristjánsson í menningarnefnd, Kristján Hilmir Baldursson og Ísak Arnar Kolbeinsson í skipulags- og mannvirkjanefnd, Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir og Benedikt Bjarnason í skólanefnd og Victor Levi Ferrua Teitsson og Geir Zoëga í umhverfisnefnd.

Að sögn Ásgerðar Halldórsdóttur bæjarstjóra er mikil ánægja meðal bæjarstjórnarmanna með setu unga fólksins á Nesinu í nefndunum og afar mikilvægt að sjónarmið þeirra komist milliliðalaust til skila.

Það styður einnig við áherslu bæjarins um lýðræðislega þátttöku bæjarbúa um málefni bæjarins.

Á fundunum fá fulltrúar Ungmennaráðsins tækifæri til að ræða og meta stöðu sína í eigin samfélagi og grundvöll til að eiga samtal við aðra nefndarmenn sem starfa í stjórnsýslunni.

Ungmennaráð Seltjarnarness er afar öflugur félagsskapur sem leggur áherslu á samveru og fagnaðarfundi með eldri borgurum auk þess að starfa ötullega að jafningjafræðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×