Innlent

Aðeins ein kona formaður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Vísir/Vilhelm
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi á fundi borgarstjórnar í gær hversu bágur hlutur kvenna er í úthlutun embætta. Júlíus Vífill Ingvarsson vakti athygli á því að í fjórum af fimm stærstu ráðum borgarinnar (ráð í flokki 1) gegna karlar formennsku. Greidd er hærri þóknun fyrir setu í ráðum í flokki 1 en fyrir setu í öðrum ráðum og nefndum á vegum borgarinnar. Björk Vilhelmsdóttir gegnir formennsku í velferðarráði en formenn annarra ráða í flokki 1, þ.e. borgarráðs, skóla-og frístundaráðs, umhverfis-og skipulagsráðs og nýs stjórnkerfis-og lýðræðisráðs, eru karlar.

Júlíus Vífill segir nýjan meirihluta ekki senda góð skilaboð til kvenna í borgarstjórn þar sem umrædd ráð eru þau umsvifamestu í stjórnkerfinu. Það séu gamaldags og úrelt vinnubrögð að karlmenn fari að nær öllu leyti með formennsku í þeim. Nýr meirihluti hafi mikið talað fyrir því að útrýma þurfi kynbundnum launamun og auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Júlíus segir alla í borgarstjórn sammála um nauðsyn þess. "Við stjórnmálamenn eigum því að ganga á undan með góðu fordæmi en með því að veita konum minni hlutverk og minni ábyrgð í ráðum borgarinnar er meirihlutinn einmitt ekki að gera slíkt," segir Júlíus. Aðspurður um hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hafi skipað í umrædd ráð segir Júlíus flokkinn hafa gætt þess að skipa jafnmargar konur og karlar.

Meirihlutinn lagði fram bókun í lok borgarstjórnarfundar þar sem bent er á að ef ráð í flokki 2 séu tekin með eru hlutföll kynjanna jöfn, en ekki náðist í Sóleyju Tómasdóttur, forseta borgarstjórnar, við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×