Innlent

Mörg dæmi um að upprunamerkingar vanti á matjurtir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Upprunamerkingum er víða ábótavant þó svo að þetta grænmetisborð virðist merkt í þaula.
Upprunamerkingum er víða ábótavant þó svo að þetta grænmetisborð virðist merkt í þaula. VÍSIR/VILHELM
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga stóðu fyrir rannsókn á merkingu upprunalands á matjurtum frá september 2013 til maí 2014 en tilgangurinn var að kanna hvort upplýsingar sem skylt er að veita um uppruna væru til staðar, hvort þær væru læsilegar og hvort merkingarnar væru villandi.

Rannsókn á upprunamerkingum matjurta var framkvæmd í 49 verslunum víða um land og voru um 368 innpakkaðarmatjurtir og 292 óinnpakkaðar skoðaðar með tilliti til upprunamerkinga en niðurstöður könnunarinnar voru birtar á heimasíðu Matvælastofnunnar í dag.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að á innpökkuðum matjurtum voru upplýsingar um upprunaland á 84% vara sem innihalda eina matjurtategund. Á vörum með blöndu af tegundum voru upplýsingar um upprunaland allra tegunda á þremur af hverjum fjórum vörum. Upplýsingar um upprunaland vantaði því á 16 prósent þeirra vara sem innihalda eina tegund en á um fjórðung vara sem innihalda blöndu matjurta. Merkingar þessara vara voru vel læsilegar í 92 prósent tilfella og skýrar í 93 prósent tilfella. Í 7 prósent tilfella voru merkingarnar taldar óskýrar eða villandi.

„Þegar óinnpakkað grænmeti er selt verður upprunaland að koma skýrt fram við vöruna þannig að neytandi geti á greiðan hátt séð hvaðan það kemur,“ segir í tilkynningu frá Matvælastofnun en rannsóknin leiddi í ljós að við þriðjung óinnpakkaðra matjurta vantaði upprunamerkingar eða upprunamerkingin var með þeim hætti að ekki var greinilegt að hún átti við matjurtina. Jafnframt sýndu niðurstöðurnar að við þriðjung óinnpakkaðra matjurta var upprunamerkingin ekki vel læsileg þótt hún væri til staðar.

Mikill munur er á milli verslana, sumar þeirra eru með allar óinnpakkaðar matjurtir vel merktar, en einnig eru dæmi um verslanir þar sem engar upprunamerkingar eru til staðar. Að mati Matvælastofnunnar var framkvæmd rannsóknarinnar þegar litið er til fjölda skoðunarstaða og matvara með þeim hætti að niðurstöðurnar ættu að gefa góða mynd af ástandi upprunamerkinga á þeim matjurtum sem skylt er að merkja samkvæmt reglugerð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×