Innlent

Í gæsluvarðhald fyrir að hafa valdið sex bíla árekstri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Áreksturinn varð á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar.
Áreksturinn varð á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar.
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir átján ára pilti sem meðal annars er sakaður um að hafa valdið sex bíla árekstri þann 25. maí síðastliðinn.

Þrátt fyrir ungan aldur á hinn ákærði langan sakaferil að baki, er í neyslu fíkniefna og á enga fasta búsetu. Talið var að yfirgnæfandi líkur væru á að maðurinn myndi brjóta af sér að nýju og var honum því gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, en dómur fellur í máli hans á morgun.

Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa valdið sex bíla árekstri á gatnamótum Kringlumýrar- og Suðurlandsbrautar hinn 25.maí síðastliðinn. Níu voru fluttir á slysadeild Landspítalans í kjölfar árekstursins, hann þar á meðal. Maðurinn var undir áhrifum vímuefna.  Hann, ásamt þremur öðrum, höfðu gert tilraun til ráns í verslun, en voru að forða sér af vettvangi og ók ökumaðurinn gegn rauðu ljósi inn á gatnamótin, með fyrrgreindum afleiðingum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu höfðar ákæruna á hendur mannsins, meðal annars fyrir stuld á Subaru bifreið og önnur auðgunarbrot, fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot og umferðarlagabrot.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×