Innlent

Leitar konunnar sem tók við Neyðarlínusímtalinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og skúrinn þar sem sprengingin varð.
Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og skúrinn þar sem sprengingin varð. Vísir/Gestur/Valli
„Mig bráðvantar að finna þessa konu og verð afar þakklát ef einhver getur aðstoðað mig við það,“ segir Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sjónvarpskona á Stöð 2 sem leitar konu sem aðstoðaði þrjá unga drengi á Sogavegi eftir gassprengingu fyrir sex árum.

Í lok október árið 2008 varð gassprenging í vinnuskúr í Grundargerðisgarði þar sem sex ungmenni hlutu brunasár. Sprengingin er eitt af þeim málum sem tekin verða fyrir í þáttaröðinni Neyðarlínan sem hefur göngu sína að nýju á Stöð 2 í september.

„Þetta tiltekna mál hefur mikið forvarnargildi. Krakkarnir voru að sniffa gas í skúrnum og sum þeirra hlutu mjög alvarleg brunasár. Þátturinn um gassprenginguna er einn af sjö sem við erum að leggja lokahönd á þessa dagana.“

Eftir sprenginguna tvístruðust ungmennin í allar áttir. Þrír drengir hlupu niður á Sogaveg og stöðvuðu þar bifreið eftir að hafa sjálfir hringt í Neyðarlínuna. Í bifreiðinni var kona sem tók við símtalinu við Neyðarlínuna og tók stjórn á vettvangi.

„Konan gaf hvorki upp nafn né annað í símtalinu svo ég hef ekki fundið aðrar leiðir til að komast að því hver hún er,“ segir Sigrún Ósk í samtali við Vísi.

Strákarnir telja að um gráa BMW bifreið hafi verið að ræða.

„Hún stóð sig mjög vel í erfiðum aðstæðum, gerði sitt besta til að róa ástandið og gat gefið Neyðarlínunni greinargóðar upplýsingar um hvað var í gangi.“

Hægt er að hafa samband við Sigrúnu Ósk á Facebook eða með því að senda henni línu á sigrunosk@stod2.is.


Tengdar fréttir

Heyrði hrikaleg hljóð og sá blóðuga unglinga

Áslaug Þóra Harðardóttir, íbúi í Grundargerði, þar sem eldur kveiknaði út frá gasi í skúr í kvöld sagði í seinnifréttum Ríkissjónvarpsins að hún hafi heyrt mikla sprengingu og talið að um jarðskjálfta hafi verið að ræða. Fljótlega hafi hún áttað sig á því að svo væri ekki því hún heyrði mikil hróp og hrikaleg hljóð. Í framhaldinu hafi blóðug ungmenni flúið frá slysstaðnum. Sjálf hafi hún aðstoðað brennda stúlku.

Bústaðakirkja opnuð í kjölfar gassprengingar

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins beinir þeim tilmælum til þeirra sem voru á slysstað í Grundargerði þegar eldur kveiknaði út frá gasi í skúr í kvöld gefi sig fram og mæti í Bústaðakirkju. Samkvæmt lögreglunnni á höfuðborgarsvæðinu verður upplýsingum safnað saman og sálræn aðstoð veitt. Óljóst er hvort fleiri hafi verið í skúrnum þegar hann sprakk.

Enn engar upplýsingar um tildrög sprengingar

Sex unglingar liggja enn á sjúkrahúsi, þar af einn á gjörgæsludeild Landsspítalans, eftir sprengingu sem varð í vinnuskúr borgarinnar í svonefndum Grundargerðisgarði í smáíbúðahverfinu í Reykjavík í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×