Innlent

Gosóróinn í Gjálp hófst daginn eftir þann stóra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tveir sigkatlar voru fyrstu merkin sem sáust á yfirborði Vatnajökuls í Gjálpargosinu fyrir 18 árum.
Tveir sigkatlar voru fyrstu merkin sem sáust á yfirborði Vatnajökuls í Gjálpargosinu fyrir 18 árum. Mynd/Stöð 2.
Jarðskjálftinn í nótt upp á 5,3 stig beinir enn sjónum að Gjálpargosinu í Vatnajökli árið 1996. Þá var það einmitt skjálfti af þeirri stærð sem talinn er hafa hrundið eldgosinu af stað. Merki um gos sáust þó ekki strax heldur leið meira en sólarhringur frá stóra skjálftanum þar til gosórói sást á mælum, tæpir tveir sólarhringar liður frá skjálftanum þar til sigkatlar sáust á jöklinum og nærri þrír sólarhringar þar til gosmökkurinn kom upp úr jöklinum. 

Ísþykktin þar sem gossprungan opnaðist árið 1996 er talin hafa verið 450 til 600 metrar. Ísþykktin á þeim stað í Dyngjujökli, þar sem Almannavarnir töldu að gos hefði byrjað í gær, er áætluð minni, eða 150 til 400 metrar.

Frá Gjálpargosinu 1996. Stór ísgjá myndaðist þá í Vatnajökli milli Bárðarbungu og Grímsvatna.Mynd/Stöð 2.
Atburðarásin í upphafi Gjálpargossins fyrir átján árum var í grófum dráttum þessi:

Jarðskjálfti upp á rúm fimm stig varð í Bárðarbungu laust fyrir hádegi þann 29. september. Stöðug skjálftahrina var í gangi. Að kvöldi 30. september hófst gosórói og eldgos er talið hefjast. Að morgni 1. október sáust sigkatlar á jöklinum á svæði milli Bárðarbungu og Grímsvatna. Að morgni 2. október kom svo gosmökkur upp úr jöklinum og öskufall hófst. 

Bræðsluvatnið safnaðist á næstu fimm vikum fyrir í Grímsvötnum og þann 5. nóvember brast það niður á Skeiðarársand með hamfaraflóði, sem rauf hringveginn á löngum kafla, sópaði Gígjubrú burt og tók Skeiðarárbrú í sundur á kafla. Skeiðarársandur var þakinn ísbjörgum sem bárust með hlaupinu.

Sjónvarpsmyndir og nánari umfjöllun um Gjálpargosið 1996 má sjá hér.

Skeiðarársandur eftir hamfarirnar 1996. Fréttablaðið/ÞÖK

Tengdar fréttir

Skjálfti yfir fimm stig gæti ræst eldfjallið

Almannavarnir telja ennþá hættu á eldgosi frá Bárðarbungu og þótt ekkert bendi enn til þess að kvika sé á leið til yfirborðs hefur ógnin frá eldfjallinu sífellt víðtækari áhrif á samfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×