Erlent

35 þúsund flóttamenn hafa komist frá Sinjar-fjalli

Randver Kári Randversson skrifar
Frá flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi þar sem margir Jasídar, sem flúið hafa frá Írak, hafast við.
Frá flóttamannabúðum Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi þar sem margir Jasídar, sem flúið hafa frá Írak, hafast við. Vísir/AP
Um 35 þúsund flóttamenn hafa nú komist af Sinjar-fjalli þar sem þúsundum flóttamanna hefur verið haldið í herkví af samtökunum IS, Íslamskt ríki. Flóttamennirnir, sem flestir eru Jasídar, hafa farið fótgangandi til Kúrdistan í norðurhluta Íraks í gegnum Sýrland, en ferðin tekur um þrjá daga.

Á vef Sky News er haft eftir talsmanni Sameinuðu þjóðanna að fólkið sé uppgefið og þjáist af vökvaskorti, og margir hafi fengið hitaslag eftir að hafa ferðast fótgangandi í 40-45 gráðu hita í þrjá sólarhringa.  

Enn eru um 20-30 þúsund manns á Sinjar-fjalli án matar og vatns. Fólkið flúði þangað undan vígamönnum samtakanna IS, Íslamskt ríki, sem hafa hótað að myrða þá Jasída sem ekki taki upp Íslam.   

Þá er einn látinn og um tuttugu slasaðir eftir að írösk herþyrla, sem flutti hjálpargögn til þeirra sem enn eru á fjallinu, hrapaði við það að of margir flóttamenn reyndu að komast um borð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×