Í innslagi CNN sést hvernig hjálpargögnum er varpað úr úr þyrlunni áður en henni er lent og hluti fólksins er bjargað um borð. Þurfti þó að vísa fjölda fólks frá þar sem þyrlan gat ekki borið fleiri.
Hersveitir Kúrda eiga nú í átökum við vígamenn IS-samtakanna í norðurhluta Íraks. Þúsundir jasída hafast við á Sinjar-fjalli, en jasídar og aðrir trúarlegir minnihlutahópar hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna framgöngu IS-liða.
Í frétt BBC kemur fram að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segi fjölþjóðlega aðgerð nú vera í bígerð um að bjarga þeim jasídum sem fastir eru í fjöllunum og komast hvorki lönd né strönd.
Íraksher hefur þegar dreift hjálpargögnum til nauðstaddra og bjargað hluta þeirra inn á svæði sem er undir stjórn Kúrda.
Francois Hollande Frakklandsforseti tilkynnti fyrr í dag að franski herinn hugðist koma vopnum í hendur hersveita Kúrda. Bandaríkjaher hefur gert slíkt hið sama og tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún hugðist senda 130 sérfræðinga hersins til að aðstoða hersveitir Kúrda í baráttunni gegn liðsmönnum IS.