Erlent

„ESB hefur skotið sig í fótinn“

Atli Ísleifsson skrifar
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010.
Victor Orban hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ungverjalands frá árinu 2010. Vísir/AFP
Forsætisráðherra Ungverjalands segir Evrópusambandið hafa valdið sjálfu sér mestum skaða með viðskiptaþvingunum sínum gegn Rússlandi. Viktor Orban hefur hvatt aðildarríki ESB til að endurskoða ákvörðunina.

„Viðskiptaþvinganir Vesturlanda veldur okkur sjálfum meiri skaða en Rússum. Í stjórnmálum kallast þetta að skjóta sig í fótinn,“ segir Orban í samtali við Reuters. Orban lét orðin falla eftir að forsætisráðherra Slóvakíu kallaði þvinganirnar „tilgangslausar“.

Rússland er helsta viðskiptaríki Ungverja utan ESB, en á síðasta ári fluttu Ungverjar út vörur til Rússlands fyrir um 2,55 milljarða evra.

Í frétt SVT segir að utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB komi saman til fundar í dag til að ræða ástandið í Úkraínu sem er ástæða þvingananna. Orban sagðist ætla gera sitt allra besta til að fá ESB til að draga viðskiptaþvinganirnar til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×