Erlent

Fordæma „grimmdarverk og misþyrmingar“ í Írak

Atli Ísleifsson skrifar
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagðist að ekki væri hægt að standa hjá þegar verið væri að slátra fólki í Írak.
Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagðist að ekki væri hægt að standa hjá þegar verið væri að slátra fólki í Írak. Vísir/AFP
Utanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa fordæmt þau „grimmdarverk og misþyrmingar“ sem hafa verið framin gegn trúarlegum minnihlutahópum í Írak.

Ráðherrarnir komu saman til fundar í Brussel fyrr í dag, þar sem ákveðið var að hvert og eitt aðildarríki fengi að ákveða hvort það bjóði hersveitum Kúrda vopn í baráttu þeirra við vígasveitir IS-samtakanna í norðurhluta Íraks.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagðist eftir fundinn ætla fara til Íraks til að funda með leiðtogum Kúrda og írökskum ráðamönnum og ræða hvar og hvernig aðstoðar væri þörf. „Við getum einfaldlega ekki bara staðið hjá þegar verið er að slátra fólki þarna.“

Í frétt BBC segir að Frakkar og Bandaríkjamenn hafi þegar tilkynnt að þeir muni koma vopnum í hendur Kúrda, en áætlað er að um 1,2 milljónir Íraka hafi neyðst til að flýja heimili sín vegna ofsókna IS-liða.

Haider al-Abadi hefur nú tekið við embætti forsætisráðherra Íraks og er grafalvarlegt  ástand í norðurhluta landsins eitt þeirra verkefna sem bíða hans. Abadi tók við embættinu af Nouri al-Maliki sem sóttist eftir að sitja þriðja kjörtímabilið. Með skipun Abadi tókst að binda endi á margra mánaða pattstöðu í írökskum stjórnmálum eftir að kosningar fóru fram í landinu í apríl síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×