Innlent

Líklegra að jarðskjálftavirknin lognist útaf

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Fundur Vísindamannaráðs Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu við Bárðarbungu lauk á sjöunda tímanum í kvöld. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir að það beri að taka þessa öflugu skjálftavirkni alvarlega og hún geti leitt til eldgoss.

„Það er búin að vera öflug skjálftavirkni í Bárðarbungu frá því klukkan 03:00 í nótt, öflugri virkni en hefur verið síðastliðin 18 ár, síðan það gaus í Gjálp. Það verður að taka þessu alvarlega og að þessi aukna virkni geti leitt til eldgoss í Bárðarbungu eða við hana,“ segir Magnús Tumi.

Minni líkur en meiri á gosi

„Það er nú samt líklegra að virknin lognist útaf eins og margar jarðskjálftahrinur gera en það er ekki hægt að taka sénsinn á því fyrirfram. Við erum að bera okkur saman um hvað við höfum verið að sjá, aðallega hvað hægt er að sjá út úr gögnum Veðurstofu Íslands, og meta hver atburðaráðsin gæti orðið,“ segir Magnús Tumi í kvöld.

Er möguleiki á að það verði eldgos í Bárðarbungu?

„Það er ómögulegt að segja. Við verðum að vera við öllu búin,“ svarar Magnús Tumi. „Við höfum farið yfir gossögu Bárðarbungu og hvaða atburðir hafa átt sér stað í fortíðinni, hvernig skjálftavirknin hefur breyst undanfarin ár og hvað þetta gæti þýtt. Einn möguleikinn er að þetta endi með eldgosi undir jöklinum og ef að það gerist þá myndi koma hlaup sem gæti orðið býsna stórt. Það er líklegast að slíkt hlaup fari niður Jökulsá á Fjöllum en getur líka farið niður Kölduhvísl og ekki útilokað að það fari niður í Skjálfandafljót.“


Tengdar fréttir

Bárðarbunga gæti valdið hamförum við Dettifoss

Almannavarnir lýstu í dag yfir óvissustigi vegna jarðskjálftahrinu sem staðið hefur yfir í Bárðarbungu frá því í nótt. Kvika er talin vera á hreyfingu í eldstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×