Erlent

Úkraínska þingið hafnaði afsögn Yatseniuk

Randver Kári Randversson skrifar
Arseny Yatseniuk, forsætisráðherra, og Petro Porosjenko, forseti, ræðast við eftir atkvæðagreiðsluna í úkraínska þinginu.
Arseny Yatseniuk, forsætisráðherra, og Petro Porosjenko, forseti, ræðast við eftir atkvæðagreiðsluna í úkraínska þinginu. Vísir/AP
Úkraínska þingið hafnaði í gær afsögn Arseny Yatseniuk, forsætisráðherra, sem sagði af sér embætti í síðustu viku í kjölfar þess að tveir samstarfsflokkar gengu úr ríkisstjórninni. Lög voru samþykkt til að fjármagna herta sókn hersins gegn aðskilnaðarsinnum og forða ríkinu frá greiðslufalli.

Með ákvörðun þingsins er útlit fyrir að Yatseniuk njóti trausts til að gegna áfram lykilhlutverki í tilraunum til að leysa deiluna milli Úkraínu og Rússlands. Óttast var að afsögn Yatseniuks í síðustu viku myndi auka á pólitískan óstöðugleika í landinu og valda óvissu um hvort Úkraína myndi standa við skilyrði alþjóðlegs samkomulags um efnahagslega aðstoð til ríkisins.

Á vef Reuters kemur fram að þingið hafi nú tryggt hernum aukafjárveitingu að andvirði 758 miljónir dollara til að herða sókn hersins gegn aðskilnaðarsinnum. Fyrr í mánuðinum endurheimti herinn borginga Slavians og sækir nú fram í Donbass-héraði, sem liggur að landamærum Rússlands.

Einnig voru samþykktar nauðsynlegar breytingar á fjárlögum til að forða úkraínska ríkinu frá greiðslufalli á erlendum skuldbindingum sínum. Með því hefði ríkið orðið af frekari greiðslum úr björgunarpakka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem á 17 milljarða dollara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×