Fótbolti

Engin fordæmi fyrir banni Suárez

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Luis Suárez í leik Úrúgvæ og Englands í sumar.
Luis Suárez í leik Úrúgvæ og Englands í sumar. Vísir/Getty
Lögmaður Luis Suárez hefur enga trú á öðru en að bann Suárez verði stytt þegar Alþjóða íþróttadómstóllinn tekur málið fyrir á morgun.

Suárez var dæmdur í fjögurra mánaða bann fyrir að bíta Giorgio Chiellini í leik Úrúgvæ og Ítalíu á Heimsmeistaramótinu.

Samkvæmt banninu er Suárez óheimilt að taka þátt í allri knattspyrnutengdri starfsemi og má hann því ekki æfa með nýja félagsliði sínu, Barcelona á meðan banninu stendur.

Málið fékk flýtimeðferð hjá Alþjóða íþróttadómstólnum og verður tekið fyrir í Lausanne í Sviss á morgun. Daniel Cravo, brasilíski lögmaður Suárez sem úrúgvæska knattspyrnusambandið réð hefur enga trú á öðru en að bannið verði stytt.

„FIFA vildi sýna að þeir gætu tekið stórar ákvarðanir eftir óánægjuna með hvernig þeir tóku á máli Zidane árið 2006. Þeir geta ekki bannað honum að leika með félagsliðinu sínu, það eru engin fordæmi fyrir því sem réttlæta bannið,“ sagði Cravo sem vonast til þess að bann Suárez með Úrúgvæ verði einnig stytt.

„Níu leikir eru of mikið. Hann fær ekki að leika með liðinu fyrr en árið 2016,“ sagði Daniel Cravo, lögmaður Luis Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×