Erlent

Loftárásir Bandaríkjahers hófust í dag

Birta Björnsdóttir skrifar
Bandaríkjaher hóf loftárásir gegn íslamistasamtakanna IS fyrr í dag. Bandaríkjaforseti sagði í ávarpi í nótt að eingöngu væru um hernað úr lofti að ræða, ekki stæði til að senda hermenn á ný til Íraks.

Uppúr hádegi að íslenskum tíma barst svo tilkynning frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna þar sem fram kom að loftárásir væru hafnar og þær miðuðu að því að valda skemmdum á vopnabúnaði samtakanna Íslamskt ríki, IS, í nágrenni við borgina Irbil í norðurhluta landsins.

IS-samtökin hafa undanfarnar vikur og mánuði hert ítök sín og yfirráð í Írak, nú síðast í norðvesturhluta landsins.

Íbúar borgarinnar Sindsjar hafa flúið tugþúsundum saman upp á samnefnt fjall í kjölfar hernámsins þar sem þeir hafast við við þröngan skort, matar- og vatnslitlir, og hafa bæði börn og aldraðir látist af næringarskorti.

Íslamistarnir virðast einnig hafa náð Mosulstíflunni, stærstu stíflu landsins, á sitt vald, en hún er skammt frá borginni Mosul.

Obama sagði yfirvöld í Írak hafa leitað eftir aðstoð og markmið Bandaríkjahers væri að bregðast við kallinu með eins mikilli varúð og mögulegt væri til að sporna við gegndarlausum morðum íslamistasamtakanna IS á fólki af öðrum trúarbrögðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×