Innlent

Sjúklingar ekki nógu upplýstir um rétt sinn

Birta Björnsdóttir skrifar
Tannlæknar leita í auknu mæli til tannsmiða á erlendri grundu, ekki síst í Svíþjóð og í Kína, við að þjónusta sjúklinga sína. En útgáfu upprunavottorða með tanngervum er verulega ábótavant, bæði hér á landi og erlendis. Þetta kemur fram í lokaverkefni Guðrúnar Halldórsdóttur og Sigríðar Kristinsdóttur frá tannlæknadeild Háskóla Íslands.

Það er í raun öryggisatriði fyrir sjúklinga að fá allar upplýsingar um hvað er sett upp í munninn á þeim, segir Guðrún.

Í rannsókn Sigríðar og Guðrúnar var leitað til bæði tannlækna og tannsmiða um meðal annars upprunavottorð. Þar kom fram að einungis 17 prósentum þeirra innlendu tanngerva sem tannlæknar hér á landi nota fylgja upprunavottorð, en þau fylgja með í 35% tilfella þegar um erlenda tanngerva er að ræða.

Lækningatæki sem fest eru við bein og vefi, líkt og tanngerfi, getur haft áhrif á líkamsstarfsemi. Innihald og gæði sem notuð eru í tækin skipta máli. En er eitthvað sem bendir til að gæðin séu minni í tanngerfum sem koma erlendis frá? 

Við rannsökuðum það í raun ekki í en það er sannarlega efni í aðra rannsókn," segir Guðrún.

37% aðspurðra tannlækna í rannsókninni sögðu íslensk tanngervi vera betri, en 11% töldu þau erlendu vera betri. 52% tannlækna sögðust telja um sambærileg gæði væri að ræða.

Lögum samkvæmt skulu öllum lækningatækjum hér á landi fylgja nauðsynlegar upplýsingar um framleiðanda og leiðbeiningar um örugga notkun.Það er Lyfjastofnun ríkisins sem ber að hafa eftirlit með skráningu sérsmíðuðum tanngervum.

Það vantar ekki viljann hjá þeim, en það vantar fjármagn," segir Sigríður.

Þó eftirliti sé ábótavant er það einnig á ábyrgð tannlækna og tannsmiða að halda skjólstæðingum sínum upplýstum hvað þetta varðar. Sigríður segir mögulega tilefni til þess að endurskoða eðli upprunavottorða.

Þetta eru svo flóknar og ítarlegar upplýsingar sem eiga að koma fram á upprunavottorðunum að mönnum fallast hugsanlega bara hendur," segir Sigríður.  

Sjúklingar ættu líka að biðja um upprunavottorð á þeim vörum sem þeim fá. Ég held að sjúklingar séu ekki nógu meðvitaðir um sinn rétt," segir Guðrún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×