Innlent

Nokkrir sækja um margar sveitastjórastöður

Bjarki Ármannsson skrifar
Jón Pálmi og Einar Kristján sóttu báðir um stöðu sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar.
Jón Pálmi og Einar Kristján sóttu báðir um stöðu sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar. Mynd/Samsett
Frestur til að sækja um sveitarstjórastöður er runninn út víða um land og hafa nöfn umsækjenda verið birt. Athygli vekur að nokkrir einstaklingar hafa sótt um flestar eða allar sveitarstjórastöður sem í boði eru þrátt fyrir að um störf í mismunandi landshlutum sé að ræða.

Undanfarnar vikur hafa listar yfir umsækjendur í stöðu sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, Hvalfjarðarsveitar, Ásahrepps, Flóahrepps, Grýtubakkahrepps, Húnaþings vestra og bæjarstjóra Grundarfjarðar verið birtir.

Aðalsteinn J. Halldórsson, sem ýmist er titlaður stjórnmálafræðingur eða stjórnsýslufræðingur, sótti um allar þessar sjö stöður. Einar Kristján Jónsson, rekstrarstjóri og fyrrum formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, sótti um fimm stöður og sömuleiðis Jón Pálmi Pálsson, fyrrum bæjarritari og um tíð starfandi bæjarstjóri Akranesbæjar. Þá má finna nafn Eirnýjar Vals, fyrrum bæjarstjóra í Vogum, á fjórum listum.

Jón Pálmi PálssonMynd/Úr einkasafni
Kemur ekki á óvart

„Í sveitarstjórnargeiranum er áhugavert að starfa,“ segir Jón Pálmi. „Þetta er nú keimlíkt starf frá einu sveitarfélagi til annars og ég er alveg tilbúinn til að taka mig upp til að vinna á góðum stað.“

Jón Pálmi segir það ekki koma mikið á óvart að sama fólkið skuli sækja í margar stöðurnar.

„Það er nú svosem ekki of gott atvinnuástand, eins og sakir standa,  fyrir fólk með stjórnunar- og fjármálatengda menntun,“ segir Jón Pálmi. „Þess vegna er ég ekkert hissa. Svo er þetta þokkalega vel launað líka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×