Fótbolti

Sjö leikmenn Kamerún sakaðir um að hagræða úrslitum á HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alex Song fær rauða spjaldið gegn Króatíu.
Alex Song fær rauða spjaldið gegn Króatíu. vísir/getty
Forsvarsmenn knattspyrnusambands Kamerún ætla að rannsaka ásakanir í garð sjö leikmanna liðsins sem sagðir eru hafa hagrætt úrslitum kamerúnska landsliðsins í A-riðli heimsmeistaramótsins í Brasilíu.

Ásakanirnar birtust í grein þýska blaðsins Spiegel, en það er þekktur svindlari frá Singapúr, sem dæmdur hefur verið fyrir að hagræða úrslitum leikja, sem segir leikmenn Kamerún hafa staðið í þessu.

Kamerún tapaði öllum leikjum sínum í riðlakeppninni; 1-0 gegn Mexíkó, 4-0 gegn Króatíu og 4-1 gegn Brasilíu. Alex Song, leikmaður Barcelona, fékk rautt spjald í leiknum gegn Króatíu fyrir að elta uppi leikmann andstæðinganna og slá hann af afli í bakið.

„Þessar ásakanir um hagræðingu úrslita, sérstaklega í leiknum gegn Króatíu, og að við séum með sjö skemmd epli í hópnum endurspegla ekki það sem knattspyrnusamband okkar stendur fyrir. Við munum leita allra ráða til að leysa þetta mál eins fljótt og hægt er,“ segir í yfirlýsingu frá kamerúnska knattspyrnusambandinu.

Fyrir HM neituðu leikmenn liðsins að ganga um borð í flugvélina sem átti að fljúga með þá til Brasilíu fyrr en deila um bónusgreiðslur væri afgreidd. Á endanum var komist að samkomulagi en ferðalag liðsins tafðist um einn dag.

Liðið spilaði svo mjög illa á mótinu sjálfu og tapaði öllum leikjunum sannfærandi. Frammistaðan gegn Króatíu var einstaklega skammarleg þar sem samherjarnir BenoitAssou-Ekotto og BenjaminMoukandjo tókust á í miðjum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×