Fótbolti

Þjóðverjar á meðal átta bestu á HM sextán sinnum í röð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
André Schürrle og Mesut Özil skoruðu mörk Þjóðverja í gær.
André Schürrle og Mesut Özil skoruðu mörk Þjóðverja í gær. vísir/getty
Þýskaland komst í gærkvöldi átta liða úrslit á HM í fótbolta í Brasilíu þegar liðið vann Alsír, 2-1, eftir framlengingu.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þýska landsliðsins sé komið þetta langt í mótinu. Þetta er nefnilega í 16. skiptið í röð sem Þýskaland kemst í átta liða úrslitin, eða er á meðal átta bestu liða á HM.

Þýskaland var ekki með á fyrstu heimsmeistarakeppninni í Úrúgvæ árið 1930, en endaði svo í þriðja sæti á Ítalíu 1934 og í tíunda sæti í Frakklandi fjórum árum síðar.

Heimsmeistarakeppnin var ekki haldin aftur fyrr en 1950 og þá var Þýskalandi meinuð þáttaka. Þjóðverjar sneru aftur á HM fjórum árum síðar í Sviss þar sem þeir urðu meistarar í fyrsta skipti. Síðan þá hefur árangurinn verið hreint magnaður.

Þýskaland hefur sjö sinnum leikið til úrslita ('54, '66, '74, '82, '86, '90 og '02) og orðið heimsmeistari í þrígang; 1954, 1974 og 1990.

Þýskaland verður aldrei neðar en í áttunda sæti úr því sem komið er í Brasilíu en næst mætir liðið Frakklandi í átta liða úrslitum á Maracana-vellinum í Ríó á föstudaginn.

Árangur Þýskalands á HM frá 1954:

1954: Meistari

1958: Fjórða sæti

1962: Sjöunda sæti

1966: Annað sæti

1970: Þriðja sæti

1974: Meistari

1978: Sjötta sæti (Komst í seinni hluta riðlakeppninnar)

1982: Annað sæti

1986: Annað sæti

1990: Meistari

1994: Fimmta sæti (slegið út í átta liða úrslitum)

1998: Sjöunda sæti (slegið út í átta liða úrslitum)

2002: Annað sæti

2006: Þriðja sæti

2010: Þriðja sæti

2014: Komið í átta liða úrslit

Þýskaland hefur ekki unnið HM síðan Lothar Matthäus og félagar lyftu bikarnum 1990, en árangurinn er samt magnaður.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×