Innlent

Mikil tækifæri í fríverslun við Kína

Heimir Már Pétursson skrifar
Fríverslunarsamningur Íslands og Kína tekur gildi í dag. Össur Skarphéðinsson segir enga þvergsögn felast í því að fagna samningnum og styðja aðild Íslands að ESB.
Fríverslunarsamningur Íslands og Kína tekur gildi í dag. Össur Skarphéðinsson segir enga þvergsögn felast í því að fagna samningnum og styðja aðild Íslands að ESB.
Fríverslunarsamningur Íslands og Kína sem tekur gildi í dag er mikilvægasti milliríkjasamningur sem Ísland hefur gert frá því samningurinn um Evrópska efnahagssvæði var gerður, að mati fyrrverandi utanríkisráðherra. Samngurinn hafi þegar leitt til mikils ávinnings fyrir þjóðina.

Fríverslunarsamningurinn var undirbúinn í tíð síðustu ríkisstjórnar og undirritaður í apríl á síðasta ári af Össuri Skarphéðinssyni þáverandi utanríkisráðherra fyrir Íslands hönd. Alþingi staðfesti samninginn síðan í vor.

Í fyrsta lagi gefur hann okkur Íslendingum færi á að kaupa kínverskar vörur töluvert ódýrari heldur en áður. En í öðru lagi er líklegt að hann leiði til þess að við getum selt vörur frá Íslandi miklu betur heldur en ella. Þetta skapar mikil tækifæri fyrir sjávarútveg,“ Segir Össur en möguleikarnir séu einnig miklir varðandi útflutning landbúnaðarvara eins og lambakjöts, enda fjölmenn millistétt í Kína.

Þótt samningurinn taki formlega gildi í dag gæti áhrifa hans nú þegar. Fyrirtækið Silicor hafi t.a.m. ákveðið að byggja sólarkísilverksmiðju á Grundartanga.

„Þar sem fjögur hundruð Íslendingar munu fá vel unnin störf og verður fjárfesting upp á 77 milljarða. Það hefur lýst því yfir að úrslitaástæðan sem olli því að staðarvalið var hér á Íslandi  hafi verið fríverslunarsamningurinn við Kína og tollfríðindin inn á kínamarkað,“ segir Össur.

Þá hafi komið fram á ráðstefnu á dögunum að fjögur erlend fyrirtæki væru að velta fyrir sér að koma upp einhvers konar úrvinnslu hér á landi vegna þess að hægt sé að flytja afurðirnar tollfrjálst inn til Kína. Tækifærin séu því mörg en þau fljúgi ekki sjálfkrafa upp í hendurnar á fólki; hafa verði fyrir þeim.

„En ég held því óhikað fram að þessi samningur sé lang mikilvægasti alþjóðlegi samningurinn sem Íslendingar hafa gert frá því að EES samningurinn var gerður fyrir tuttugu árum,“ segir utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Forskotið felist í að Ísland sé eina Evrópuríkið sem Kínverjar hafi gert við fríverslunarsamning.

En slær ekki skökku við að einlægur stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið fagni þessum samningi sem væntanlega myndi falla úr gildi við inngöngu Íslands í Evrópusambandið?

„Nei, það er alls ekki órökrétt, ekki síst með tilliti til þess að það eru þegar farnar af stað þreifingar millum Kína og Evrópusambandsins um fríverslunarsamning. Ég er sannfærður um að slíkur samningur brestur á innan áratugar. Þannig að við myndum þá innan Evrópusambandsins halda öllu því sem við höfum. Þannig að þetta vinnur bara saman,“  segir Össur Skarphéðinsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×