Fótbolti

Di María skaut Argentínu í 16-liða úrslitin

Vísir/Getty
Angel Di María skoraði sigurmark Argentínumanna á lokamínútum framlengingarinnar í 1-0 sigri á Sviss í 16-liða úrslitum Heimsmeistarakeppninnar. Di María hafði verið slakur fram að markinu en hafði stáltaugar og kláraði leikinn þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af uppbótartímanum.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en besta tækifæri hálfleiksins fengu Svisslendingar. Löng sending kom inn fyrir vörn Argentínumanna þar sem Josip Drmic var einn á auðum sjó en reyndi að vippa boltanum yfir Sergio Romero í argentínska markinu sem var vel staðsettur og greip boltann. Staðan var því markalaus í hálfleik.

Í seinni hálfleik hertu Argentínumenn tökin á leiknum og fór leikurinn að mestu leyti fram á vallarhelmingi Sviss. Þrátt fyrir nokkur ágæt færi tókst Argentínumönnum ekki að koma boltanum framhjá Diego Benaglio í marki Sviss og þurfti því að grípa til framlengingar.

Það virtist allt stefna í vítaspyrnukeppni þegar Di Maria skoraði sigurmark Argentínu í lok uppbótartímans. Lionel Messi fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi Svisslendinga, keyrði að vítateignum og sendi á Di María sem lagði boltann í hornið.

Blerim Dzemaili fékk sannkallað dauðafæri á síðustu mínútum leiksins þegar hann fékk skallafæri af meters færi en skalli hans hafnaði í stönginni. Frákastið skoppaði af sköflungi Dzemaili og rétt framhjá stönginni. Svisslendingar reyndu hvað sem þeir gátu að ná jöfnunarmarkinu á lokamínútum leiksins en tókst ekki að koma boltanum í netið.

Það voru því Argentínumenn tryggðu sæti sitt í 16-liða úrslitum en þeir fá að vita mótherja sinn seinna í kvöld eftir að leik Belgíu og Bandaríkjanna lýkur en hann hefst klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×