Innlent

Aldrei fleiri vændiskaupamál

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri vændiskaupamál komið inn á borð ríkislögreglustjóra og í fyrra. Málin voru 175 talsins, rúmlega sjö sinnum fleiri en árið áður.

Í svari Eyglóar Harðardóttur félags og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, um lokum Kristínarhúss og úrræði fyrir einstaklinga í vændi, kemur fram að vændiskaupamál hafi verið 37 árið 2010, 13 árið 2011, 24 árið 2012 og 175 árið 2013.  Þessi gríðarlega fjölgun mála í fyrra vekur athygli en það ár gerði lögregla átak í að upplýsa vændiskaup á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur komið að málum 30 einstaklinga sem hafa verið skilgreindir sem brotaþolar í vændiskaupamálum á tímabilinu 2011 til apríl 2014. Flestir þeirra eru konur, ellefu með íslenskt ríkisfang og tólf með erlent. Sjö eru íslenskir karlar. 

Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu að þessi aukni málafjöldi sé árangur átaks og aukinnar vinnu lögreglu í málaflokki sem ekki hafi verið sinnt nægilega vel síðustu ár. Vændiskaupamál séu erfið í rannsókn og krefjast bæði mikils tíma og mannafla. Átakinu sem slíku er nú lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×