Innlent

Nýr rektor tekinn til starfa við Háskólann á Akureyri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Dr. Eyjólfur Guðmundsson og Stefán B. Sigurðsson fráfarandi rektor
Dr. Eyjólfur Guðmundsson og Stefán B. Sigurðsson fráfarandi rektor
Dr. Eyjólfur Guðmundsson tók formlega við starfi rektors Háskólans á Akureyri í gær af Stefáni B. Sigurðssyni sem gegnt hefur stöðu rektors síðastliðin fimm ár.

Á heimasíðu háskólans kemur fram að Eyjólfur hefur starfað hjá CCP síðast­liðin sjö ár sem aðalhagfræðingur fyrirtækisins. Hann lauk BS-gráðu í hagfræði frá Há­skóla Íslands árið 1992 og doktors­prófi í sömu fræðigrein frá Rhode Island University í Bandaríkjunum árið 2001. Á þeim tíma starfaði Eyjólfur við Háskólann á Akureyri þar sem hann starfaði í sjö ár, síðustu árin sem deildarforseti viðskipta- og raunvísindadeildar skólans, áður en hann var ráðinn til CCP.

Eyjólfur segir skólann hafa vaxið mjög að umfangi og eflst þau 27 ár sem hann hefur verið starfandi.  Í kveðju til starfsmanna á fyrsta starfsdegi sínum sagði Eyjólfur:

 „Háskólinn á Akureyri stendur á sterkum grunni sem byggður hefur verið í harðri baráttu síðustu ár – baráttu sem nú er að skila sér.  Aldrei hafa fleiri nemendur sótt um nám við skólann líkt og nú, útkoma úr gæðaskýrslu hvað varðar kennslu og stjórnsýslu skólans staðfesti sterkan grunn akademísks starfs og námsumhverfi nemenda og fjárhagsstaða skólans er sterk þrátt fyrir ítrekaðan niðurskurð á síðustu árum.  Þessi frábæri árangur hefði aldrei náðst nema með samstilltu átaki og vilja ykkar til að takast á við þá erfiðleika sem steðjuðu að skólanum, og þjóðinni allri, á síðustu árum.“

Jafnframt kom fram í máli hans að: „...með jákvæðni að leiðarljósi, og með stoltið yfir árangri síðustu ára í farteskinu, mun okkar í sameiningu takast að spyrna við fótum og hefja uppbyggingu að nýju.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×