Innlent

Starfsemi Fiskistofu lömuð

Heimir Már Pétursson skrifar
Fiskistofustjóri hefur ekki ákveðið hvort hann og fjölskylda hans flytja með Fiskistofu til Akureyrar. Samráðhópur á vegum atvinnuvegaráðherra fundar um málið í dag.
Fiskistofustjóri hefur ekki ákveðið hvort hann og fjölskylda hans flytja með Fiskistofu til Akureyrar. Samráðhópur á vegum atvinnuvegaráðherra fundar um málið í dag. mynd/Guðmundur B. Agnarsson
Fiskistofustjóri hefur sjálfur ekki gert upp við sig hvort hann flyst norður til Akureyrar með stofnuninni en segir að nú sé verkefnið að skipuleggja flutningana að vilja ráðherra. Trúnaðarmaður segir stofnunina lamaða eftir að ráðherra kynnti áform sín á föstudag.

Starfsmenn Fiskistofu áttu fund með fulltrúum nokkurra stéttarfélaga í gær. Á þeim fundi kom fram að starfsfólk lítur á áætlanir Sigurðar Inga Jóhannssonar atvinnuvegaráðherra um fluting Fiskistofu að hluta eða öllu leyti til Akureyrar sem fjöldauppsögn.

Jóhanna S. Vilhjálmsdóttir trúnaðarmaður starfsmanna gagnvart SFR stéttarfélagi er annar fulltrúi starfsmanna af tveimur í samráðshópi sem settur hefur verið saman vegna flutninganna að ósk ráðherra.  Jóhanna segir starfsmenn fyrst og fremst velta fyrir sér réttindum sínum á þessari stundu, en samráðshópurinn  kemur saman til fyrsta fundar í dag.

Hefur þú einhverjar væntingar til hans, um að hægt sé að breyta þessari ákvörðun á einhvern hátt?

„Ég á nú ekki von á því svona í fyrsta kasti að það verði. Við þurfum bara að sjá hvað er verið að hugsa og hver er réttarstaða okkar,“ segir Jóhanna.

Starfsmönnum sé réttarstaða þeirra efst í huga þessa dagana hvað varði biðlaun, lífeyrisréttindi og svo framvegis. Fáir eða engir starfsmenn ætli að fylgja stofnuninni til Akureyrar.

„Það eru náttúrlega margir í sumarfríi en eins og andinn er hérna á ég ekki von á því að margir fylgi stofnuninni norður,“ segir Jóhanna. Og andinn sé ekki sérlega góður innan stofnunarinnar þessa dagana.

„Nei, það er allt hálf lamað ennþá eins og við er að búast. Þetta er stór skellur sem við fengum,“ bætir hún við.

Eyþór Björnsson fiskistofustjóri.mynd/fiskistofa
Eyþór Björnsson fiskistofustjóri segir að ekki verði auðvelt að þjálfa upp nýtt starfsfólk, sem margt búi yfir mikilli sérþekkingu, ef svo fari að starfsmenn fylgi stofnuninni ekki norður til Akureyrar.

Þessi ákvörðun virðist koma skyndilega hjá ráðherra. Hvernig slær þessi ákvörðun þig?

„Ég hef bara eins og aðrir starfsmenn þurft að vinna úr þessu og setjast niður með minni fjölskyldu og ræða hvernig þetta slær okkur. En núna er þetta bara stórt verkefni sem ég hef verið að vinna að og reyna að leysa eins vel og mögulegt er,“ segir Eyþór.

Þú sjálfur, heldur þú að þú munir flytja norður?

„Það er til skoðunar. Ég hef ekki getað ákveðið mig í því. Þetta er stór ákvörðun að flytja norður á Akureyri,“ segir Eyþór Björnsson fiskistofustjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×