Innlent

Kambar verða tvöfaldir í ágúst

Kristján Már Unnarsson skrifar
Suðurlandsvegur um Hellisheiði og Kamba er að taka stakkaskiptum og síðar í sumar verða akreinar í Kömbunum orðnar fjórar. Um 20 starfsmenn Ístaks hafa unnið að verkinu frá því í desember. Breikka á Suðurlandsveg á fjórtán kílómetra kafla, frá Hveradalabrekku og niður fyrir Kamba.

Eftir breytingu verða þrjár akreinar yfir Hellisheiði og fjórar í Kömbum og aksturstefnur aðskildar með vegriði. Helsta markmiðið er að auka umferðaröryggi og krappa beygjan neðst í Kömbunum verður gerð mýkri. Jafnframt verða gerð fern undirgöng fyrir hestamenn og göngufólk og í Hveradalabrekkunni kemur nýr vegur í gamla vegstæðinu. Hann verður tenging við Skíðaskálann til að fækka hættulegum gatnamótum.

Kambarnir eru þó stærsti verkhlutinn og þar er ekki vandalaust að vinna ofan í fjölförnum þjóðvegi. Ístaksmenn nota þó mest vinnuveg í vegkantinum til að trufla umferð sem minnst, að sögn Þrastar Sívertsen, staðarstjóra Ístaks á Hellisheiði.


Vegurinn verður 2+2 og akreinar aðskildar með vegriði. Krappa beygjan neðst í Kömbum verður gerð mýkri.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Starfsmönnunum finnst þó að ökumenn mættu draga meira úr hraðanum og segir Ármann Garðarsson, verkstjóri Ístaks, að margir virði ekki 70 kílómetra hámarkshraða og aki allt of hratt. Lögreglan sé þó reglulega með eftirlit með umferðinni. 

Þótt verklok séu ekki áætluð fyrr en á síðari hluta næsta árs verða einstaka verkþættir tilbúnir fyrr. Þannig er stefnt að því að opna nýjan Kambaveg með fjórum akreinum eftir tvo mánuði, í lok ágústmánaðar
, að sögn Þrastar Sívertsen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×