Innlent

Mannleg mistök ollu strandinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Helga Gunnarsdóttir
Hvalaskoðunarbáturinn Haukur var dreginn á flot upp úr klukkan níu í kvöld. Að því loknu var honum siglt undir eigin vélarafli í höfn á Húsavík. Enginn leki hefur komið í ljós.

Í tilkynningu frá Norðursiglingu á Húsavík segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Verið var að skoða lunda við eyjuna og var bátnum siglt of nærri eyjunni. Við það hafi báturinn setið fastur og tekið að halla.

„Kallað var strax eftir aðstoð og neyðaráætlun skipsins sett í gang. Hlúð var að farþegum þar til þeir voru ferjaðir frá borði og fluttir til Húsavíkur til aðhlynningar á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Norðursiglingar,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir einnig að björgunaraðgerðir hafi gengið hratt og vel fyrir sig. Um tuttugu mínútum eftir að tilkynnt var um atvikið hafi gúmmíbátur frá Norðursiglingu verið kominn á staðinn og fleiri bátar hafi fylgt í kjölfarið.

„Aðstæður voru góðar, rólegt í sjóinn og lítil hætta á ferðum.“

Norðursigling vill koma á framfæri kæru þakklæti til allra þeirra sem komu að aðgerðum og þá sérstaklega. Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu, Björgunarsveitinni Garðari, Rauða krossinum, Gentle Giants, Sæunni ÞH, Flatey ÞH, Slökkviliði Húsavíkur og Lögreglunni á Húsavík.

Mynd/Helga Gunnarsdóttir
Mynd/Helga Gunnarsdóttir
Mynd/Helga Gunnarsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×