Fótbolti

Boateng: HM var martröð frá fyrsta degi til þess síðasta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin-Prince Boateng var rekinn heim.
Kevin-Prince Boateng var rekinn heim. vísir/getty
Kevin-Prince Boateng, landsliðsmaður Gana í knattspyrnu, sendir knattspyrnusambandi landsins væna pillu í viðtali við þýska íþróttaablaðið SportBild.

Hann segir undirbúning liðsins og veru þess á HM í Brasilíu algjörlega misheppnaða frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Mikið gekk á í herbúðum Gana, sérstaklega undir lok riðlakeppninnar þegar leikmennirnir hótuðu að spila ekki vegna vangoldinna bónusgreiðslna. Flogið var frá Gana til Brasilíu með þrjár milljónir dala sem leikmennirnir skiptu á milli sín.

„Ég er svakalega svekktur með þetta allt saman. Þetta var einfaldlega ekki skemmtilegur tími - heldur martröð frá fyrsta degi undirbúnings og allt til enda,“ segir Boateng.

„Mér datt ekki í hug að hægt væri að skipuleggja undirbúning fyrir HM og veru á mótinu svona allt. Það var allt slæmt; hótelin og flugin.“

„Flugið okkar frá Miami til Brasilíu tók tólf klukkustundir. Við sátum aftast, alveg troðnir. Okkur verkjaði í fæturnar. Fyrir atvinnumenn er þetta móðgandi. Á sama tíma sat forseti sambandsins á Buisness Class með konuna og börnin sín tvö. Í Brasilíu tókst fólkinu sem bar ábyrgð á ferðatöskunum að týna minni. Ég var ekki með takkaskó í marga daga, ekkert límband, ekkert. Þetta var skelfilegt.“

„Fyrir leikinn á móti Bandaríkjunum sváfum við á sóðalegu hóteli. Það getur ekki verið að FIFA hafi mælt með þessu hóteli. Herbergin voru blaut. Ég þurfti að skipta um hebergi því þetta var eins og í sundlaug. Vatn lak úr loftinu,“ segir Kevin-Prince Boateng.

Boateng og Muntari voru reknir heim fyrir lokaleik riðlakeppninnar þar sem Gana tapaði á móti Portúgal og féll úr keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×