Innlent

Fimm yfirgefnir kettlingar fundust í Grindavík

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá kettlingana sem fundust í gærkvöldi.
Hér má sjá kettlingana sem fundust í gærkvöldi.
Fimm kettlingar fundust yfirgefnir við bryggjuna í Grindavík í gærkvöldi. Anna Sigríður Sigurðardóttir Grindvíkingur hefur tekið þá að sér tímabundið og leitar nú að mjólkandi læðu til þess að koma þessum kettlingum á legg. Anna telur að kettlingarnir hafi ekki verið dagsgamlir þegar þeir fundust í gær.

„Mér skal takast að koma þeim á legg,“ segir Anna ákveðin á meðan hún gefur kettlingunum pela. Þegar kettlingarnir fundust í gær var hringt í Önnu. „Já, ég er svo aumingjagóð manneskja, ég get ekki látið látið svona yfirgefin  dýr vera. Ég fékk símtalið um hálf ellefu í gærkvöldi og fór beint niður að bryggju og sótti þá. Þegar ég kom þarna að hitti ég tvo stráka sem fundu þá. Þeir sögðust hafa séð einhverja læðu þarna hjá. En ég held að þetta hafi verið villiköttur sem hafi gotið þarna. Ég trúi ekki að nokkur skilji kettlinga eftir svona.“

Anna Sigríður fór með kettlingana heim til sín í gærkvöldi. „Síðan var bara stíf vakt í nótt, ég gaf þeim pela á tveggja tíma fresti.“

Anna segist ekki getað haldið kettlingunum sjálf. „Ég er með veika tík hérna heima og get ekki haldið þeim. Þess vegna auglýsi ég eftir mjólkandi læðu sem getur komið þeim á legg.“

Anna gaf kettlingunum pela í alla nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×