Innlent

"Við héldum að þetta væri stórslys“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sjónarvottum, sem urðu vitni að því þegar flugvél með tvo innanborðs nauðlenti á Vatnsleysuströnd í gær, var mjög brugðið og töldu að um stórslys væri að ræða. 

Víkurfréttir birtu hljóðbút af neyðarkalli sem flugmaður tveggja sæta kennsluvélar af gerðinni Diamond DA20 sendi frá sér um hálf fimmleytið í gær. Vélin er í eigu flugskóla Keilis og um borð voru kennari og nemandi við skólann. 

Vélin missti afl í mótor þegar hún var úti yfir sjónum skammt frá Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd. Flugmanninum tókst að nauðlenda á golfvellinum en í lendingunni kollsteyptist vélin hún og endaði á hvolfi.

Hjónin Ingþór Þorvaldsson og Salvör Kristín Héðinsdóttir voru á golfvellinum þegar slysið átti sér stað. Þeim brá mikið við að sjá vélina skella á jörðinni steinsnar frá þeim.

„Ég var bara að einbeita mér að högginu mínu þegar mér er litið upp og ég sé flugvélina. Ég átta mig strax á því að mótorinn er bilaður vegna þess að hreyfillinn er stopp og það heyrist ekkert í vélinni. Það var algjör skelfing að sjá þetta“ segir Ingþór. 

„Við erum ofboðslega ánægð að ekki fór verr vegna þess að við héldum að um stórslys væri að ræða, þetta leit þannig út“ bætir Salvör við.

Slysið verður rannsakað af Rannsóknarnefnd samgönguslysa en á þessu stigi geta forsvarsmenn flugskólans ekki tjáð sig nánar um tildrög slyssins. 








Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×