Innlent

Kærðu brot hæstaréttardómara: Segir aulafyndni ekki við hæfi í svo alvarlegu máli

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Þorsteinn, t.v., gagnrýnir fullyrðingar Skúla, t.h.
Þorsteinn, t.v., gagnrýnir fullyrðingar Skúla, t.h.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, gagnrýnir formann dómarafélagsins, Skúla Magnússon, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Segir hann þær fullyrðingar hans að eðlilegasti farvegurinn fyrir brot dómara í opinberu starfi væri að kæra dómara til nefndar um dómarastörf ekki standast skoðun auk þess sem hann segir aulafyndni Skúla í Fréttablaðinu í gær sjálfstætt áhyggjuefni.

Dótturfyrirtæki Samherja, Polaris Seafood kærði hæstaréttardómarann Ingveldi Einarsdóttur til lögreglu sem heimilaði húsleit og haldlagningu gagna hjá félaginu eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær. Þorsteinn segir í greininni þau gögn ekki til staðar sem dómari kveðst hafa byggt á við afgreiðslu þvingunaraðgerðar gegn fyrirtækinu. Hann tekur fram að kæran um ætluð brot Ingveldar byggi á skriflegri staðfestingu héraðsdóms á broti og aðfinnslum Hæstaréttar við störf hennar.

„Ávirðingar formanns dómarafélagsins um ómálefnalegar ástæður og grundvöll kærunnar eiga því ekki við rök að styðjast.“

Engum sæmir að hæðast að grafalvarlegu málinu

Þar fer hann ómjúkum orðum um þá málsmeðferð sem formaður dómarafélagsins, Skúli Magnússon, telur eðlilegasta þegar svona mál koma upp. Að sögn Skúla ætti að senda kvörtun til nefndar um dómarastörf. „Þetta stenst ekki skoðun. Enginn ætti að vera dómari í eigin sök og dómarar njóta sem betur fer ekki þeirrar sérstöðu í samfélaginu að nefnd á þeirra vegum geti úrskurðað um lögbrot,“ skrifar Þorsteinn í greininni. Hann segist jafnframt hafa á því áhuga að vita hversu mörg mál hafa farið í gegnum nefndina á undanförnum árum og fá upplýsingar um afdrif þeirra.

„Það er sjálfstætt áhyggjuefni að formaður dómarafélagsins reyni að gera lítið úr málinu með þeirri aulafyndni sem titill greinar hans í Fréttablaðinu í gær „Út af með dómarann?“, ber með sér,“ segir Þorsteinn. „Um er að ræða grafalvarlegt mál sem engum sæmir að hæðast að.“ 


Tengdar fréttir

Réttlát málsmeðferð

Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um kæru Polaris Seafood á hendur dómara sem heimilaði húsleit og haldlagningu gagna hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×