Innlent

Háskólanemar hræddari en grunnskólanemar að spyrja í tímum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Elín Ósk Helgadóttir, lögmaður, kennir lögfræði í Háskóla Íslands um þessar mundir en ekki háskólanemum eins og hún er vön.
Elín Ósk Helgadóttir, lögmaður, kennir lögfræði í Háskóla Íslands um þessar mundir en ekki háskólanemum eins og hún er vön.
 „Lögfræðin sem þau hafa kynnst hefur verið í gegnum sjónvarpið og þætti. Þau halda pínulítið að þetta snúist aðallega um það að elta glæpamenn,“ segir Elín Ósk Helgadóttir, lögmaður og stundakennari við Háskóla Íslands en hún kennir  um þessar stundir lögfræði í Háskóla unga fólksins. Hann var settur í tíunda skiptið í morgun. „Áður en ég byrjaði að kenna hélt ég að þetta yrðu annars vegar krakkar sem hefðu gríðarlega mikinn áhuga og hins vegar þeir sem hefðu pínulítið verið píndir af foreldrum sínum,“ útskýrir Elín. „En reyndin er sú að þau eru nánast öll alveg ótrúlega áhugasöm, finnst þetta mjög skemmtilegt og eru spennt að fara í áframhaldandi nám. Þetta verkefni, Háskóli unga fólksins, gerir því ótrúlega mikið fyrir háskólann.“

Um 350 nemendur á aldrinum 12-16 ára sækja skólann í ár. Krökkunum stóð til boða að velja úr fjölmörgum spennandi námskeiðum, en þau hafa aldrei verið fleiri enda var nýjum námskeiðum bætt í hópinn í tilefni af tíu ára afmæli skólans. Auk lögfræðinnar verður kennd kristallafræði, Biophilia Bjarkar, tómstunda- og félagsmálafræði, hjólreiðar og vísindi og meira að segja smíði kappakstursbíls.

Kjartan Sveinn Guðmundsson er að verða 12 ára og sest í fyrsta skipti á skólabekk í Háskóla unga fólksins.Úr einkasafni
Virkja börn meira sem þátttakendur í samfélaginu

Að sögn Elínar er munur á því að kenna háskólanemum og krökkunum sem sækja Háskóla Unga fólksins. „Krakkarnir spyrja mikið og eru ekkert feimnir við það. Háskólanemandinn er miklu hræddari við það og þá verða tímarnir ekki jafnskemmtilegir. Þegar háskólaneminn lyftir upp hendi er hann meira að miðla sinni þekkingu en það er alls ekki þannig með krakkana. En það er auðvitað líka á ábyrgð kennarans að hvetja nemendur til þess að spyrja spurninga.“ Það er athugunarefni hvar þessi eiginleiki glatast en Elín segist ekki gera sér grein fyrir því hvar í skólakerfinu það gerist. 

Mikil umræða skapast í tímum og eru krakkarnir hissa á því hvað það er mikið af upplýsingum sem þau geta nálgast sjálf á netinu. „Til dæmis að lögin í landinu og dómar séu aðgengileg á internetinu, að það séu til lög um allan skapaðan hlut og að þinghöld séu opin. Maður megi bara labba inn í dómsal og hlustað eins og maður vill.“ 

Eðlilegt er því að spyrja hvort að það vanti ekki upp á lögfræðikennslu í grunnskólum en því svarar Elín að kenna lögfræði sem slíka væri ekki endilega sniðugt. En að það eigi hiklaust að virkja börn í að vera þátttakendur í samfélaginu og mikilvægt sé að fjalla um málefni líðandi stundar. Þannig sé tæpt á lögfræðilegum álitaefnum.

„Þetta gæti verið með bestu tímum sem ég hef farið í“ 

Kjartan Sveinn Guðmundsson, 11 að verða 12 ára, er nemandi í Háskóla unga fólksins í fyrsta skipti í ár. Hann hóf daginn á tíma í nýsköpun. „Þetta gæti verið með bestu tímum sem ég hef farið í,“ fullyrðir Kjartan. „Maður átti að vera með hugmyndaflug, hugsa út fyrir kassann og bara labba um og finna hugmyndir. Langfæstir tímar í grunnskóla eru svona.“ 

En er ekki skrýtið að velja það að fara í skóla þegar maður á að vera kominn í sumarfrí?

„Nei, mér finnst það skemmtilegra, það er frábært að hafa val á öðru en útivist. Það er merkilegt að taka þátt í háskólanum, merkilegt að fylgjast með þessu öllu.“ Hann hlakkar mest til þess að fara í tíma í sameindalíffræði. „Og síðan er auðvitað þemadagurinn, þá fer ég í heimspeki. Ég hlakka til að sjá hvað gerist þá.“ 

Háskóli unga fólksins verður út vikuna en henni lýkur með heljarinnar veislu og vísindahátíð í Háskólabíó laugardaginn 14. júní. 

Háskóli Íslands fylltist af ungum nemendum í morgun fullum af eldmóði. Að sögn kennara eru þau dugleg að spyrja, duglegri en nemendurnir sem vanalega fylla sali skólans.Pjetur Sigurðsson
.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×