Innlent

Fyrsti undirbúningsfundur Viðreisnar á morgun

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Benedikt Jóhannesson er einn af þeim sem stendur að stofnun nýja flokksins.
Benedikt Jóhannesson er einn af þeim sem stendur að stofnun nýja flokksins. Vísir/GVA
Fyrsti undirbúningsfundur stjórnmálaafls sem hefur fengið vinnuheitið Viðreisn, verður haldinn á Grand Hóteli á morgun. Benedikt Jóhannesson, einn af þeim sem stendur að baki stofnun flokksins, sagði í þættinum Harmageddon í morgun, að búist væri við á milli 150 til 200 manns.

Fundargestir þurfa að greiða 1500 krónur í aðgangseyri. Unnið verður í hópum á fundinum og verður fjallað um gjaldeyrismál, menntamál, landbúnað og heilbrigðismál, svo dæmi séu tekin. Unnið verður í hópum, eftir málefnum og skila hóparnir af sér skjali sem verða notuð til að útfæra stefnu flokksins.

„Þetta er frjálslynt fólk sem þarna er,“ sagði Benedikt Jóhannesson um þá sem hann á von á að verði á fundinum, í Harmageddon í morgun. „Þetta er fólk sem hefur ekki fundið farveg sinn í þeim flokkum sem eru til núna,“ bætti hann við. Hann segist sjá ákveðna aldursdreifningu á þeim sem hafa skráð sig á fundinn. „Fjórðungur er undir fertugu og slatti undir tvítugu,“ sagði hann einnig.

Fundurinn hefst 15:30 á Grand Hóteli á morgun, dagskrána má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×