Innlent

Fannst látin í Bleiksárgljúfri

Samúel Karl Ólason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í gærkvöldi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi í gærkvöldi.
Erlend kona fannst látin í Bleiksárgljúfri, innst í Fljótshlíð, um 25 kílómetra frá Hvolsvelli í gærkvöldi. Leit stendur yfir að íslenskri konu sem var með henni. Síðast hafði spurst til þeirra á laugardagskvöld, en þær fóru í gönguferð frá sumarbústað í Fljótshlíðinni.

Báðar konurnar eru á fertugsaldri, en eftirgrennslan hófst í gær þegar þær mættu ekki til vinnu. Leitað var úr þyrlu Landhelgisgæslunnar og tók einnig fjölmennt lið björgunarsveitarmanna þátt í leitinni.

Samkvæmt heimildum Vísis fundust föt kvennanna við hyl í gljúfrinu og fundu kafarar lík konunnar í hylnum.

Samkvæmt fyrstu skoðun virðist konan hafa drukknað og er nú einkum leitað niður með gilinu og út í Markarfljót. Bleiksárgljúfur skerst niður úr hálendinu ofan við Fljótshlíð.

Leit stendur nú yfir og er stefnt á fjölgun leitarmanna, en 80 manns tóku þátt í leitinni í gær. Sérhæft leitarfólk, gönguhópar og kafarar eru nú við leit í innanverðri Fljótshlíðinni. Einnig hafa leitarhundar verið notaðir og þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið notuð til leitar úr lofti í gær og í dag.

„Framvinda leitarinnar núna er sú að þyrla Landhelgisgæslunnar mun fljúga eftir vatnasvæði Markafljóts. Ennfremur munum við senda kafara aftur til leitar og fara yfir þetta gil. Það mun líka koma hópur af björgunarsveitarmönnum sem munu ganga um svæðið og halda áfram leit á landi,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli í samtali við Bylgjuna.

Aðspurður um hvort lögreglan hafi einhvern grun um hvað gerðist segir Sveinn: „Nei, ekkert annað en að okkur sýnist þetta vera slys.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×